Leyniþjónusta

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:55:09 (1150)

2002-11-06 15:55:09# 128. lþ. 24.9 fundur 136. mál: #A leyniþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Umræðan hefur ekki verið neitt einkennileg um þetta mál, öllu fremur sá misskilningur sem virðist hafa komið fram hjá sumum hv. þm. Það er ekki verið að tala um að koma upp heimildum fyrir stofnun einhvers konar leyniþjónustu, eða öryggisþjónustu eins og sumir vilja kalla það. Það er verið að tala um að taka upp eftirlit með þeirri starfsemi sem þegar eru heimildir fyrir í lögreglulögum. Jafnvel í sérstakri þingnefnd. Það er verið að tala um að tryggja betur réttarstöðu borgaranna. Ég hefði haldið að hv. þm. mundu raunar fagna því, og ég heyri það hjá hv. formanni allshn. að hv. þm. í allshn. hafa tekið undir tillögur af þessu tagi.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, m.a. um þetta orð ,,leyniþjónusta``, tel ég ástæðu til að taka skýrt fram að engar fyrirætlanir eru uppi um það að koma á fót einhverri leyniþjónustu hér á landi í hefðbundnum skilningi þess orðs. Við erum ekki að ræða um einhverja starfsemi í líkingu við leyniþjónustu Breta eða CIA í Bandaríkjunum sem fást m.a. við njósnastarfsemi sem tengist öðrum ríkjum og fara fram í hernaðarlegum tilgangi að miklu leyti. Ég tel ekki þörf fyrir slíka stofnun hér á landi. Eingöngu er um að ræða hrein löggæsluverkefni sem snúa að innra öryggi ríkisins eins og fjallað er um í lögreglulögunum og ég vísaði til í fyrri ræðu. Rætt hefur verið um að gera heimildir lögreglu skýrari og einnig eftirlit með starfseminni.