Fangelsismál

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:57:06 (1151)

2002-11-06 15:57:06# 128. lþ. 24.10 fundur 137. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eins og við vitum búum við við ríkisstjórn sem er afskaplega áhugasöm um einkavæðingu. Hún má ekkert sjá, hvorki lifandi né dautt, án þess að vilja koma því á markað. Þess vegna brá mörgum í brún þegar fjárlagafrv. birtist en á bls. 46 í því er þess farið á leit að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að leigja með kauprétti sérhannað fangelsishúsnæði sem byggt yrði í Reykjavík. Spurning mín til hæstv. dómsmrh. er hvort áætlanir séu uppi um að einkavæða fangelsin.

Þetta er aldeilis ekki úr lausu lofti gripið. Árið 1998 birtist skýrsla um einkaframkvæmd. Þetta er afurð nefndar sem fjmrh. skipaði á sínum tíma til þess að gera tillögur um einkaframkvæmd, hvar ætti að hefjast handa næst. Þá var t.d. lagt til að Reykjavíkurflugvöllur yrði einkavæddur. Það var lagt til að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu yrði öll einkavædd. Það er hægt að hafa á þessu mismunandi form, bæði beina einkavæðingu og einnig er hægt að fara í einkaframkvæmd sem þá hugsanlega er hér verið að óska eftir að ríkisstjórnin fái heimild til að gera. Spurning mín er þessi: Stendur til að einkavæða fangelsin á Íslandi?