Fangelsismál

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:58:50 (1152)

2002-11-06 15:58:50# 128. lþ. 24.10 fundur 137. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi eigi við rekstur fangelsa og svar mitt við fyrirspurninni er neikvætt. Það eru ekki uppi áætlanir um að einkavæða fangelsisrekstur.

Tilefni fyrirspurnarinnar er væntanlegt orðalag sem finna má í 6. gr. fjárlagafrv. fyrir næsta ár en það snýr að fyrirhugaðri byggingu nýs gæsluvistar- og móttökufangelsis. Með því orðalagi er gert ráð fyrir að slíka byggingu megi fjármagna með því að leigja sérhannaða byggingu með kauprétti en innleysa hana síðan til ríkissjóðs á leigutímanum eða í lok hans. Ég ítreka að þetta snýr að fjármögnun byggingarinnar en ekki rekstri hennar. Ég vonast raunar til þess að fljótlega verði mögulegt að hefjast handa við að reisa nýtt fangelsi. Markmiðið með byggingu nýs fangelsis er tvíþætt, annars vegar að koma á fót aðstöðu fyrir gæsluvarðhaldsfanga á höfuðborgarsvæðinu sem sparar að sjálfsögðu tíma fyrir lögregluna í Reykjavík við rannsókn flókinna mála þegar gæsluvarðhaldsfangar eru staddir á Litla-Hrauni og undirstrikar auðvitað réttarstöðu gæsluvarðhaldsfanga. Hins vegar er um að ræða aðstöðu fyrir þá fanga sem eru að hefja afplánun og hina sem afplána styttri refsingar. Hugmyndin er sú að þetta verði greiningar- og móttökufangelsi sem markar upphaf fangavistarinnar og þar verði teknar ákvarðanir á grundvelli mats sérfræðinga um framhald afplánunar, svo sem í ljósi stöðu hvers einstaklings, vímuefnavanda fanga og fleira.

Ég tel að þessi framkvæmd og sú hugmynd sem að baki býr stuðli að því að þeir einstaklingar sem afplána refsingu vegna afbrota eigi auðveldara með að samlagast samfélaginu á nýjan leik þegar refsingin hefur verið tekin út. En ég ítreka vegna fyrirspurnar hv. þm. að þetta orðalag í fjárlagafrv. snýr að fjármögnun byggingarinnar en ekki að rekstri hennar.