Fangelsismál

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 16:03:24 (1155)

2002-11-06 16:03:24# 128. lþ. 24.10 fundur 137. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir stuðning þeirra við hið brýna hagsmunamál að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Ég minntist áðan á sérstöðu gæsluvarðhaldsfanga. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hver maður er saklaus þar til sekt hans er sönnuð og þess vegna á að vista þá á sérstökum stað en ekki með afplánunarföngum. Marga aðra möguleika sé ég að auki í þessu fangelsi.

Varðandi spurningu hv. fyrirspyrjanda vil ég vekja athygli á því að þetta er einungis heimild sem er sett fram í fjárlagafrv. til að fara í svokallaða einkaframkvæmd. Ég skal ekki um það segja hvort hún verður nýtt eða einhver önnur leið farin. Það sem mér finnst þó mikilvægast og vil undirstrika hér er að þessi heimild er komin í fjárlagafrv. Ég vonast því til þess að geta byrjað byggingu á þessu fangelsi fljótlega á næsta ári. Hún kostar auðvitað mikið fé og þess vegna þótti mönnum rétt að hafa þennan háttinn á, að koma með heimildina fram í fjárlagafrv.