Norðlingaölduveita og Þjórsárver

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 10:45:58 (1164)

2002-11-07 10:45:58# 128. lþ. 25.91 fundur 229#B Norðlingaölduveita og Þjórsárver# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. þm. Hjálmar Árnason skeiði í ræðustólinn í hefðbundnu hlutverki til að verja allt sem ríkisstjórnin stendur fyrir í þessum efnum. Ég hef ekki hugkvæmni til að láta mér detta neitt það í hug svo svakalegt sem þessi ríkisstjórn kynni að gera að hv. þm. Hjálmar Árnason teldi eftir sér að hlaupa í ræðustól og skjóta skildi fyrir stjórnina, í stað þess að ræða hér aðalatriði þessa máls, þessar gríðarlega alvarlegu ásakanir um að faglegum vísindalegum niðurstöðum sé hnikað til, að menn séu beittir þrýstingi gagnvart því sem hverjum heiðarlegum vísindamanni er helgast, þ.e. vísindaheiðri hans. Umhverfið blasir við okkur í okkar litla samfélagi og fámenni þar sem vísindaheimurinn er ekki stærri en svo að velflestir eiga hagsmuni sína eða atvinnu með einhverjum hætti undir því að geta starfað við sitt fag. Vinnuveitendurnir eru nú ekki margir. Ég held að við eigum að skoða í þessu samhengi það fyrirkomulag sem hér hefur verið notast við í sambandi við mat á umhverfisáhrifum. Það sem ég var að segja ber ekki að túlka sem gagnrýni á Skipulagsstofnun út af fyrir sig. En hún er þannig sett í stjórnkerfinu, eins og við öll þekkjum, undir ráðuneytinu, virkjanaráðuneytinu sem ranglega er kallað umhvrn. og við vitum öll hvernig þessar aðstæður eru.

Ég held að við endurskoðun laganna eigi að taka það til alvarlegrar athugunar í ljósi reynslunnar að hér verði til algerlega óháð sjálfstæð umhverfismatsstofnun, t.d. í skjóli Alþingis, þannig að hvorki ráðherrar, Landsvirkjun né aðrir aðilar geti verið með puttana í henni og þessi stofnun geri annað tveggja, annist matið sjálf eða a.m.k. hafi eftirlit með því að það fari sómasamlega fram.