Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:36:41 (1198)

2002-11-07 12:36:41# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir lokaorð hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, um kveðjur og þakkir til starfsmanna Ríkisendurskoðunar. Meginhlutverk Ríkisendurskoðunar er að annast eftirlit með fjárreiðum og rekstri ríkisins. Í því felst m.a. að stofnuninni er ætlað að ganga úr skugga um að við meðferð almannafjár sé farið að settum reglum, og fjárstjórnarvald Alþingis sé virt. Það skiptir að sjálfsögðu afar miklu máli hvernig til tekst í þessu efni og reyndar lít ég svo á að þessi stofnun og sú stofnun sem við ræddum fyrr í dag, embætti umboðsmanns Alþingis, séu lykilstofnanir, undirstöðustofnanir í stjórnsýslunni eða öllu heldur undir stjórnsýslunni. Þær eiga að tryggja að stjórnsýslan starfi með þeim hætti sem ætlast er til samkvæmt lögum og öllum siðalögmálum.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs heimsótti embætti ríkisendurskoðanda fyrr í haust þar sem við fengum mjög góða yfirferð yfir starfsemi á vegum stofnunarinnar sem við teljum vera mjög lofsverða. Það kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis hve umfangsmikið þetta starf er og er ekki þörf á að endurtaka það. Það kom fram í skýrslunni að undirritaðir eru ársreikningar 317 opinberra stofnana og samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í fyrrgreindri heimsókn í embættið má ætla að þessi fjöldi verði um 400 á þessu ári, 500 á komandi árum.

Stofnunin fær ívið meira framlag úr ríkissjóði á komandi ári en verið hefur. Þó tel ég að enn meira fjármagn þurfi til þessarar stofnunar sem á að hafa eftirlit með því að farið sé vel með fjármuni ríkisins. Í formála ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, að skýrslu embættisins kemur fram að úr takmörkuðu fjármagni sé að spila. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Af framansögðu leiðir að árlega er ekki mögulegt að tryggja nákvæmt eftirlit með öllum þeim aðilum sem tilheyra starfssviði stofnunarinnar. Þar með er þeirri hættu boðið heim að mistök eða jafnvel misferli eigi sér stað í tengslum við meðferð almannafjár án þess að stofnunin geti komið auga á það. Vegna tilvika af nefndu tagi sem upp hafa komið að undanförnu hefur stofnunin farið yfir vinnureglur sínar og verklag í þeim tilgangi að bæta eftirlit og nýta betur þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru. Nýjar áherslur fela m.a. í sér að lögð verður markvissari vinna en áður í að velja úr þau viðfangsefni innan ráðuneyta og stofnana sem skoðuð verða hverju sinni. Reynt verður að búa þannig um hnúta að eftirlit beinist að þeim þáttum sem mestu eru taldir ráða um það hvort reikningsskil gefi rétta mynd af rekstri og fjárreiðum á hverjum tíma.``

Hér er talað um breyttar áherslur í starfseminni. Það kemur fram að fjármagn er of takmarkað. Einhver bragarbót hefur verið gerð en það þarf að ganga enn lengra.

Síðan vekur atygli að ríkisendurskoðandi leggur áherslu á nauðsyn þess að koma á sérstökum siðareglum. Hér segir ríkisendurskoðandi, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun hefur áður bent á að ástæða sé til að kanna möguleika á því að settar verði siðareglur fyrir stjórnsýsluna hér á landi. Siðareglur veita leiðbeiningar um rétta háttsemi og minna starfsmenn á hlutverk þeirra, ábyrgð og skyldur. Almennt tel ég að slíkar reglur geti orðið til að stuðla að bættum stjórnarháttum og geti í framtíðinni reynst mikilvægur liður í því að efla traust almennings á stjórnsýslunni.``

Undir þetta vil ég taka með ríkisendurskoðanda. Ég fagna því að verið sé að gera úrbætur á húsnæði Ríkisendurskoðunar þannig að búið verði betur að starfsmönnum en hingað til hefur verið gert.