Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 12:41:47 (1199)

2002-11-07 12:41:47# 128. lþ. 25.2 fundur 227#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2001# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[12:41]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum skýrslu Ríkisendurskoðunar og þar kemur fram að hún hefur framkvæmt mikið af athugunum. Ég er mjög ánægður með starf Ríkisendurskoðunar. Það er mjög gott og mjög þarft.

Hvers vegna er þörf á fyrirtæki eða stofnun eins og Ríkisendurskoðun? Það er vegna þess að í síauknum mæli vex fé í umsjá ríkisins, fé sem enginn á. Ríkið hefur vaxið alla síðustu öld og vex enn. Þrátt fyrir tilburði til einkavæðingar er enn þá mikill vöxtur og ég reikna með því að fjárfestingar Landsvirkjunar einnar, sem er opinbert fyrirtæki í eigu sveitarfélaga og ríkisins, á undanförnum tveim til þrem árum séu miklu meiri en sú einkavæðing sem menn hafa staðið í, og mikill styr hefur staðið um. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að hafa Ríkisendurskoðun til að fylgjast með þeim peningum sem enginn á og gæta þess að þeim sé vel varið. Þetta er meginmarkmið Ríkisendurskoðunar. Hún á að setja upp innra eftirlit með stofnunum ríkisins og hafa eftirfylgni með að þeim reglum sé fylgt, gæta þess sem sagt að farið sé vel með peninga. Hún á að koma í stað hinnar styrku handar eigandans sem er alltaf til staðar þegar um er að ræða peninga einkaaðila.

Það eru tvær stofnanir sem Ríkisendurskoðun getur eðli máls samkvæmt ekki endurskoðað. Það er í fyrsta lagi Ríkisendurskoðun sjálf. Hver fylgist með því hvernig kostnaður vex þar? Hver er það sem fylgist með því að Ríkisendurskoðun fari vel með? Það hlýtur að vera hlutverk hv. alþingismanna. Ég hef ekki orðið var við mikla umræðu um það hér hvort vel sé farið með hjá Ríkisendurskoðun, og er ég þó ekkert að gefa í skyn að svo sé ekki.

[12:45]

Hin stofnunin sem Ríkisendurskoðun getur eðli máls samkvæmt ekki endurskoðað er hv. Alþingi sem ræður Ríkisendurskoðun til starfa. Það er viðurkennt í endurskoðunarreglum að sá sem á að endurskoða má ekki greiða endurskoðandanum. Þess vegna eru það t.d. aðalfundir í hlutafélögum sem ráða endurskoðanda en ekki stjórn. Endurskoðandinn á að endurskoða störf stjórnarinnar á milli aðalfunda og endurskoðandi ber ábyrgð gagnvart aðalfundi en ekki stjórn fyrirtækisins. Þess vegna getur, eðli málsins samkvæmt, Ríkisendurskoðun ekki endurskoðað starfsemi Alþingis. Það hlýtur því að vera hlutverk þingmanna sjálfra. Ég hef ekki orðið var við mikinn áhuga þingmanna á því að kafa ofan í kostnað Alþingis og sjá hvernig hann hefur þróast. Mér finnst það vera ljóður, það er nefnilega ekki gott að einhver aðili sé án eftirlits.

Reyndar er Alþingi undir mjög sterku eftirliti fjölmiðla, sérstaklega launakjör þingmanna, en fjölmiðlar hafa ekki heimild til að spyrja nákvæmlega út í ferðakostnað Alþingis, hvernig kostnaði við byggingar og framkvæmdir og því um líkt er háttað. Þetta finnst mér vera ákveðinn ljóður í þessu annars ágæta kerfi sem menn hafa verið að reyna að byggja upp til þess að koma í veg fyrir að illa sé farið með opinbert fé. En auðvitað væri best að hið opinbera væri minna í sniðum þannig að ekki væri eins mikil hætta á því að misfarið væri með fé.

Reynsla mín er sú að fólk sé almennt séð heiðarlegt. Ég giska jafnvel á að 80% fólks sé strangheiðarlegt, og það á við um opinbera starfsmenn nákvæmlega eins og alla aðra. Afgangurinn, 20%, er svona nokkurn veginn heiðarlegur en lítið brot er hreinlega óheiðarlegt. Fyrir þetta litla brot erum við að byggja upp Ríkisendurskoðun og öll þessi eftirlitskerfi til að fylgjast með því að þeir aðilar fari ekki illa með opinbert fé. Þess vegna þurfum við að hafa þetta kerfi. Það vantar hina styrku hönd eigandans sem tapar ef illa er farið með.

Ég endurtek, herra forseti, að starf Ríkisendurskoðunar er mjög þarft og nauðsynlegt, og á að útrýma gagnrýni á störf ríkisins. En ég undirstrika jafnframt að tvær stofnanir geta ekki fallið undir endurskoðun Ríkisendurskoðunar með góðu móti. Það er Ríkisendurskoðun sjálf og hv. Alþingi sem er launagreiðandi Ríkisendurskoðunar.