Verðmætaaukning sjávarfangs

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 13:33:07 (1204)

2002-11-07 13:33:07# 128. lþ. 25.94 fundur 232#B verðmætaaukning sjávarfangs# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár vegna þess að nýlega er komin út skýrsla svokallaðs AVS-stýrihóps um fimm ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs. Stýrihópurinn skilaði skýrslu 18. október sl. og er hún umfangsmikil og að mínu mati mjög vel unnin svo langt sem hún nær.

Með því að auka verðmæti sjávarfangs, eins og fram kemur í skýrslunni, um 5--6% á ári næstu 5--10 árin, má auka verðmætin úr 130 milljörðum kr. 2001 í 240 milljarða árið 2012. Þessi spá nefndarinnar er byggð á ígrundaðri ágiskun þeirra sem stýrihópurinn hefur leitað til. Hér er um svo stórt mál að ræða, virðulegi forseti, fyrir íslenskt samfélag að það þarf sinn sess í hinni pólitísku umræðu. Framtíðarspá nefndarinnar tekur til hráefnis, vinnslu, aukaafurða, fiskeldis, líftækni og búnaðar og þekkingar. Nefndin bendir á að á síðustu tíu árum hafi sáralítil eða engin verðmætaaukning sé miðað við SDR, Special Drawing Rights, verið á sjávarfangi.

Það liggur því beinast við að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji ekki augljóst að núverandi stjórnkerfi fiskveiða við landið hafi hamlað framþróun til verðmætaaukningar á þessu tímabili. Þetta er u.þ.b. það tímabil sem við höfum búið við fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum nú.

Ég vil líka spyrja hæstv. sjútvrh. hvers vegna hafi farið svona hljótt um þessa skýrslu. Hún hefur ekki borist þingmönnum og hefur t.d. ekki borist nefndarmönnum í sjútvn. Mér finnst það liggja beint við að spyrja hæstv. sjútvrh. hvaða ályktanir hann dragi af skýrslunni eftir lestur hennar, því hér er eins og ég segi um að ræða tuga milljarða möguleika í verðmætaaukningu fyrir landið sem ekki hefur náðst fram, ekki einu sinni um nokkurra milljarða á sl. 10 árum. Í framhaldi af því spyr ég hæstv. sjútvrh. hvort hann sé tilbúinn að hefja á ný viðræður um grundvallarbreytingar á sjávarútvegsstefnunni. Ég tel augljóst á grunni þessarar skýrslu að hv. Alþingi geti beitt sér við mótun sjávarútvegsstefnunar til að ná þeirri framþróun sem getið er um að möguleg sé í skýrslunni.

Margar áherslur í skýrslunni eru samhljóða áherslum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum. Þar er lögð áhersla á ástand umhverfis, umhverfisvöktun, veiðisvæði, veiðarfæri og meðferð hráefna. Í skýrslunni kemur fram að meðalnýting sjófrystiskipa er um 41--43% í þorskvinnslu. Það er beinlaust og roðlaust. Í samanburði er 49% nýting í landvinnslu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ávallt lagt áherslu á að auka hlut landvinnslunnar.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. greini þinginu frá hvaða ályktanir hann dregur af yfirlestri þessarar skýrslu sem gefur okkur grunn til að ætla að tugmilljarðasóknarfæri sé í verðmætaaukningu fyrir samfélagið. Eigi að verða af þessari verðmætaaukningu eins og fram kemur í skýrslunni er það hlutverk stjórnvalda að stýra málinu. Stjórnvöldum ber að setja þannig reglur að auðlindir hafsins séu nýttar á sjálfbæran hátt og tryggja það með reglum og rannsóknum að afurðir og umhverfið sé hreint og ómengað. Það er hlutverk stjórnvalda að stýra notkun auðlindarinnar eins og berlega kemur fram. Stýring á notkun auðlindarinnar er grunnur þeirrar verðmætaaukningar sem sögð er möguleg í þessari skýrslu. Þess vegna er hér um hápólitískt mál að ræða sem á heima á hinu háa Alþingi. Sé stjórnin ekki rétt samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar, þá náum við ekki þeim framförum sem stefnt er að og mögulegar eru að mati þeirra sem að verkinu komu. Þetta eru stór og alvarleg mál, virðulegi forseti, og þarfnast umræðu.

Fiskveiðistjórnarkerfi síðustu ára hefur skilað okkur hræðilegum hliðarafleiðingum, fólksflótta af landsbyggðinni, fækkun fólks í sjávarþorpum og fækkun fyrirtækja þar sem sjávarbyggðir hafa verið settar nánast í rúst. Er þetta sá árangur sem við ætlum að byggja verðmætaaukninguna á í framtíðinni?