Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:17:39 (1234)

2002-11-07 15:17:39# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., Flm. KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Flm. (Karl V. Matthíasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Bjarnasyni fyrir orð hans og segi það reyndar að ég get ekki séð það fyrir mér að allt þorskeldi eða fiskeldi verði einungis sunnan lands eða við suðurströndina því ég held að firðirnir séu nú ákjósanlegri oft í sambandi við kvíarnar, þar er meira skjól og annað. Ég vil einnig benda á að það væri algjörlega fáránlegt að þorskeldi væri bara stundað við suðurströndina eða þar sem hlýrri er sjórinn. Við þurfum náttúrlega að hafa það um landið, bæði vegna byggðanna og líka vegna þess að ef við erum með allt á sama stað og upp kæmi sjúkdómur eða eitthvað slíkt, þá yrði það náttúrlega alveg hroðalegt högg fyrir greinina. Og ég trúi ekki öðru en að þetta sé bara vanhugsun sem hafi komið fram í skýrslunni með að færa eldið allt á einn stað.