Rannsóknir á þorskeldi

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 15:34:09 (1239)

2002-11-07 15:34:09# 128. lþ. 25.5 fundur 35. mál: #A rannsóknir á þorskeldi# þál., SI
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Er framtíð í þorskeldi á Íslandi? Þetta er spurning sem margir hafa velt fyrir sér að undanförnu og eru enn að velta fyrir sér. Ef við lítum til baka, til ársins 2000, sést að veidd voru 81 milljón tonna af villtum fiski í heiminum. Veiðin hafði þá á ársgrundvelli staðið í stað í áratug. Árið 2000 voru jafnframt framleiddar 13,3 milljónir tonna með fiskeldi í heiminum. Framleiðsla eldisfisks hafði þá aukist um 49% á áratug. Menn sjá fram á a.m.k. tvöföldun á þessum afla, þ.e. fiskeldinu, á næstu 10 árum.

Þróunin í eldi hefur verið fremur hæg hér á landi. Helst hefur bleikjueldið verið í sókn, að ógleymdu lúðueldinu í Eyjafirði. En Í lúðu- og bleikjueldi hefur skapast gífurlega dýrmæt reynsla og þekking hjá heimamönnum er við það hafa starfað.

Eldi er að mínu mati framtíðaratvinnugrein sem á eftir að vaxa til muna á komandi árum, þá ekki bara á lúðu og bleikju heldur einnig á þorski og öðrum tegundum. Margir hverjir brenndu sig talsvert illa á laxeldi á sínum tíma, ekki endilega vegna þess að laxeldi ætti ekki möguleika heldur kannski aðallega vegna óþolinmæði. Það krefst þolinmæði að byggja upp fiskeldi ekki síður en það krefst þolinmæði að hefja trjárækt svo dæmi sé tekið. Ekki þarf síst þolinmótt fjármagn í atvinnugrein eins og þorskeldi sem verið er að byggja upp frá grunni.

Því er afar jákvætt að öflug sjávarútvegsfyrirtæki séu í auknum mæli farin að fjárfesta í hliðargreinum eins og fiskeldi. Mörg öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa kosið að setja aukinn slagkraft í uppbyggingu á fiskeldi og þá þorskeldi. Þetta er ein af leiðum sjávarútvegsfyrirtækja til að mæta samdrætti í aflaheimildum. Slík atvinnuuppbygging getur orðið þjóðarbúinu mjög mikilvæg í framtíðinni.

Uppbyggingin þarf að vera markviss og grunnurinn traustur. Með því móti munu eldisfyrirtæki eiga framtíðina fyrir sér. Það er enginn vafi á því í mínum huga að vaxandi hlutfall sjávarafurða mun í framtíðinni koma úr eldi. Eins og er er lítið upp úr því að hafa að fara í seiðaeldi og ala upp þorsk frá byrjun. Til að það megi ganga betur þarf að fara í kynbætur á þorski og fleira, en Norðmenn, Kanadamenn og Skotar eru þegar byrjaðir á þessum kynbótum. Hins vegar er verið að gera tilraunir með áframeldi á þorski hér við land, t.d. á Tálknafirði. Þar hefur verið veiddur þorskur í maí og júní, um tveggja kílóa þungur, hann verið alinn í um fjóra og hálfan mánuð, hann síðan sveltur í um fjórar vikur og honum slátrað. Þá hefur þyngdaraukningin að meðaltali verið 100--120%. Gæði fisksins eru alveg talin standast gæði á villtum þorski. Með því að svelta þorskinn næst festa og flökin verða ekki eins laus í sér.

Þetta lofar mjög góðu. Það þarf að halda áfram á sömu braut, standa vel að málum og vinna faglega að þessum verkum. Við þurfum líka að passa það að markaðssetja eldisþorskinn sérstaklega. Við markaðssetningu má ekki blanda saman villtum þorski og eldisþorski. Kaupendur og neytendur vilja geta séð mun á hvort þeir eru að kaupa.

Eins og ég sagði er ekki talið hagkvæmt að ala þorsk frá klaki í dag, heldur er áframeldið talið hagkvæmara. En með því að sinna því eingöngu, þ.e. áframeldi, missum við af lestinni og verðum með því móti ekki lengur samkeppnishæf eftir nokkur ár. Ég tel því vissulega að við eigum að hefja eldi strax frá grunni nú þegar.

Tveir hv. þm. hafa minnst á fóðrun. Eins og við vitum er fiskurinn það sem hann étur. Við verðum að gefa þessari eldistegund gott fóður allt frá byrjun og verðum að hafa í huga að hámarksvöxtur sé á sem skemmstum tíma, að kynþroski sé í lágmarki og við þurfum að vera þess viðbúin að mæta miklum afföllum í grunnfóðrun með auknu framleiðslumagni.

Það er mjög margt sem taka þarf tillit til þegar farið er út í eldi. Þessi tillaga sem hér er fram komin er athygliverð. En ég tel þó afar brýnt að mótuð sé almenn stefna í rannsóknar- og þróunarvinnu varðandi þorskeldi.