Virðisaukaskattur af barnafatnaði

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 16:08:01 (1245)

2002-11-07 16:08:01# 128. lþ. 25.11 fundur 311. mál: #A virðisaukaskattur af barnafatnaði# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er vissulega flutt athyglisvert mál um hvort megi fella niður eða lækka virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði fyrir börn. Ég vil minna á að það hefur orðið svolítil bið á að framkvæmt væri kosningaloforð Framsfl. fyrir síðustu kosningar um sérstök barnakort og stórefldar barnabætur til fjölskyldna. Nú er það svo hér á landi að við tókum á sínum tíma upp staðgreiðslukerfi skatta og þegar það var tekið upp var því lofað statt og stöðugt að í stað þess að áður hafði verið sérstakur frádráttur fyrir börn í skattkerfinu, þá yrðu borgaðar barnabætur með hverju barni og var svo gert um nokkurra ára skeið. Síðan hafa barnabæturnar stöðugt verið undir hnífnum og nú er svo komið að fyrir venjulegar fjölskyldur eru þær hvorki fugl né fiskur.

Ég er hér með reglugerð sem segir að hjón megi ekki hafa nema 1.354.000 í árstekjur til að fá óskertar barnabætur. Og einstætt foreldri má ekki hafa nema 677.364 kr. Eftir þetta skerðast barnabætur um 4% af tekjum fyrir eitt barn, 8% fyrir tvö börn og 10% fyrir þrjú börn, og er auðvelt að sjá að þetta er fljótt að eyðast út hjá fólki sem oft er á þeim aldri að það er að koma upp börnunum sínum og þarf einmitt að vinna mjög langan vinnudag til að standa undir afborgunum af námslánum, afborgunum af íbúðinni o.s.frv.

Mér finnst satt að segja að þetta sé sá hópur sem harðast er sótt að í okkar þjóðfélagi. Það kom mér á óvart að kynnast því upp á nýtt þegar ég varð amma að þetta hefur síst lagast frá því að ég var að ala upp mín börn. Staða barnafólks á Íslandi hefur heldur versnað. Ég verð að segja þó mér sýndist mjög gott að samþykkja þessa þáltill. um athugun á því hvort fella megi niður eða lækka virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði, þá finnst mér þó forgangsverkefni að lagfæra barnabæturnar og koma þessu í það horf sem það á í rauninni að vera samkvæmt sérstökum loforðum stjórnvalda þegar það skattkerfi sem við notum var tekið upp.

Líkt og hv. þm. sem flytur þessa tillögu hef ég oft orðið vör við að þegar fólk fer til útlanda notar það tækifærið til að sanka að sér barnafatnaði, sérstaklega í þeim löndum þar sem barnaföt eru án virðisaukaskatts. Það er svo sem ekkert óeðlilegt en það væri mjög æskilegt að ná þessari verslun inn í landið, fyrir utan það sem ég hef hér sagt um barnabætur og það átak sem þarf að gera til að koma þeim málum í sambærilegt horf og er t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, þá finnst mér mjög nauðsynlegt að skoða þetta mál með virðisaukaskatt á barnafatnaði.