Póstþjónusta

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 15:34:26 (1255)

2002-11-11 15:34:26# 128. lþ. 26.7 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rangt að það kveði við annan tón í andsvari samanborið við ræðu mína. Ég hélt fram sömu sjónarmiðum í andsvari og í ræðu minni. Ég tala hugsanlega heldur rólegar og lægra kannski, ef það ruglar hv. þm. í ríminu.

Hv. þm. talar um að nú reyni á hæft og gott starfsfólk. Þessu hæfa og góða starfsfólki er víða verið að sparka út á gaddinn. Það er að missa störf sín og því er ekki skemmt. Hæfileikar þess og reynsla fá ekki að njóta sín.

Það er alveg rétt að þetta er að gerast víða annars staðar. Samfélagsþjónustan er einkavædd og markaðsvædd víða um heim. Um þetta standa mikil pólitísk átök. Annars vegar er frjálshyggjan, sem gengur erinda fyrirtækja á markaði og sérstaklega fjölþjóðlegra fyrirtækja. Það hlutverk hafa Sjálfstfl. og Framsfl. tekið að sér hér á landi. Hins vegar eru aðilar sem stilla sér upp til varnar almannahagsmunum.

Varðandi tæknihlið þessara mála er það staðreynd að í ríkari mæli en áður eigi Póstur og Sími saman. Samskipti manna bréflega fara nú í gegnum bréf sem eru flutt símleiðis. Þessi starfsemi sem menn rifu í sundur á sínum tíma heyrir þannig saman í reynd og hefði átt að gera það einnig í skipulaginu. Ég tel að þetta tal um að tæknilega hafi þurft að kljúfa Póst og Síma og setja síðan póstþjónustuna inn í aðra þjónustustarfsemi á staðnum standist ekki rök. Ég er því fylgjandi að póstþjónustan verði styrkt á landsbyggðinni --- það á einnig við um fjármálastofnanir --- í staðinn fyrir að fylgja þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt og leggja hvort tveggja niður.