Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:23:13 (1269)

2002-11-11 17:23:13# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var nákvæmlega að undirstrika það sem ég sagði. Hann er bara að tala fyrir allt öðru kerfi. Hann vill ekkert lengur þetta kerfi sem hann tók þátt í að gerbreyta á fyrstu árum þess, 1988--1990 þegar skattfrelsismörkin voru lækkuð stórlega. Auðvitað geta menn velt vöngum yfir því hvort kerfið eigi að vera svona eða hinsegin. Stærðfræðin í þessu er mjög einföld. Menn byrja að borga, alveg eins og þingmaðurinn sagði, fullan skatt af viðbótinni, fyrir ofan skattleysismörkin, þó að meðalskatturinn af slíkum aðilum sé framan af mjög lágur. Menn borga 4,5% af 80 þús., 11% af 100 og 20% af 150 þús., ef ég man þetta rétt. Þannig er þetta kerfi okkar. Ég er ekki að segja að það sé kannski endilega fullkomið en menn eiga ekki að láta eins og það komi þeim eitthvað á óvart að þetta kerfi sé svona sem við höfum búið við í 15 ár.

Menn eiga ekki að láta eins og þeir skilji ekki það samspil sem er milli persónuafsláttarins og skatthlutfallsins og láta eins og það komi þeim algerlega á óvart að prósentuhækkunin í svokallaðri skattbyrði sé mikil þegar menn fara yfir mörkin. Þeir eiga ekki að láta þannig. Menn eiga þá bara að tala hreint út um að þeir vilji eitthvað allt annað kerfi en þetta. En vissulega hlýtur það að vera sameiginlegt markmið okkar, mitt, ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, að hækka það sem fólk hefur úr að spila hvort sem það er á bótum eða launum. Ég held að við eigum að gera það að okkar meginmarkmiði í stað þess að fjasa um þessar prósentur og taka prósentur af prósentum eins og sumir hafa gert í þessari umræðu. Ég held að við bætum okkur ekki með því.