Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 11. nóvember 2002, kl. 17:52:31 (1281)

2002-11-11 17:52:31# 128. lþ. 26.8 fundur 324. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, rekstrartap, vextir o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ekki mín meining að lengja neitt þessa umræðu enda hefur það komið í ljós í þessari umræðu og þeirri sem við áttum um daginn, utandagskrárumræðunni um áhrifin af skattstefnu ríkisstjórnarinnar, að vonlaust er að fá það fram hvort ríkisstjórnin ætli að grípa til einhverra sérstakra aðgerða til þess að lækka skatta á þeim sem helst þarf að lækka skattana á og jafna skattbyrðina. En ég vil ekki skilja við málið eins og hæstv. ráðherra gerði í síðasta andsvari þar sem ég hafði ekki tækifæri til þess að svara honum. Þar lét hæstv. ráðherra að því liggja að ég væri ranglega að væna ríkisstjórnina um að gera sérstaklega vel við fyrirtæki með skattaívilnun. Nú liggja bara fyrir, herra forseti, tölur um það efni sem hæstv. ráðherra hefur ekkert mótmælt og getur ekkert mótmælt. Það þarf ekki að fara lengra en að vísa í umræðurnar um skattalagabreytingarnar á síðasta þingi þar sem ríkisstjórnin fór miklu lengra í skattalækkunum á fyrirtækjum en nauðsynlegt var til þess að Ísland héldi sínu skattalega forskoti á aðrar þjóðir. Þá lækkaði ríkisstjórnin skatthlutfall á fyrirtækjum úr 30 í 18%. Við í Samfylkingunni teljum og töldum þá að nægjanlegt væri að fara með skatthlutfall fyrirtækja úr 30 í 25% og þrátt fyrir það héldi Ísland skattalegu forskoti sínu fyrir fyrirtækin samanborið við fyrirtæki annarra OECD-ríkja. En það kostaði líka verulegan pening fyrir ríkissjóð að fara svona langt með skatthlutfallið. Það kostaði, herra forseti, 3,7 milljarða. En ríkisstjórnin fékk hluta af fjármagni sem þurfti til þess að lækka skatthlutfallið svona mikið með hækkun á tryggingagjaldi sem kom sérstaklega illa við lítil og meðalstór fyrirtæki. Okkar leið var sú að fara með skatthlutfall fyrirtækja úr 30 25% en hækka ekki tryggingagjald á fyrirtækjum sem kemur sér mjög illa fyrir þessi fyrirtæki og er litið á sem ígildi launahækkana, sem fyrirtækin gætu þá borið fyrir sig til þess að þurfa ekki að hækka launin í landinu. Þetta ásamt ýmsu fleiru sem ríkisstjórnin hefur gripið sérstaklega til varðandi skattumhverfi stærri fyrirtækjanna er ekki eðlileg leið, sérstaklega þegar fyrir það þurfa að borga þeir sem minnst hafa milli handanna, m.a. með því sem hér hefur verið rætt, lægri persónuafslætti og frystingu á skattleysismörkun og með því að lækka ótekjutengdar barnabætur. Reyndar hefur í heild það sem var þó veitt úr ríkissjóði til barnabóta árið 1995 lækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Herra forseti. Það er þetta sem ég er að halda fram þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi gengið of langt í þessum efnum með þeim afleiðingum að orðið hafa verulegar skattatilfærslur, tilfærslur á skattbyrðinni í þjóðfélaginu frá fjármagni og eignum yfir á launin, ekki síst hjá þeim sem lægst hafa launin og meðaltekjur, og síðan á lífeyrisþegana. Það er staðeynd sem ekki verður í móti mælt að skattar á þá sem höfðu lágmarkslaun og þar undir, t.d. lífeyrisþegarnir, voru engir árið 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Nú er þetta fólk farið að borga 10--12 þús. kr. á mánuði í skatta og hæstv. fjmrh. veit að fólki finnst erfiðara að lifa þrátt fyrir það góðæri sem við höfum búið við --- þá er ég að tala um þá sem hafa lægst launin --- m.a. vegna aukinnar skattbyrði, m.a. vegna aukinnar kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu, m.a. vegna hás matvælaverðs og hárra vaxta. Þetta eru bara staðreyndir málsins sem við stöndum frammi fyrir. Til er leið til þess að jafna kjörin í landinu sem menn hafa og ríkisstjórnir notað í gegnum tíðina, þ.e. í gegnum skattkerfið. En ríkisstjórnin hefur farið í þveröfuga átt í því efni með því að lækka umfram allt sem eðlilegt er skatta á stórfyrirtækin í landinu, skatta á auðmennina, þá sem raunverulega eiga fjármagnið. Það höfum við fyrir okkur m.a. í fjármagnstekjuskattinum þar sem þeir sem eiga hið raunverulega fjármagn í landinu, auðmennirnir, þurfa að borga 10% í fjármagnstekjuskatt meðan yfirleitt er 25--40% skattur af fjármagnstekjum erlendis. Ég er þó ekki að mæla með að verði farið með fjármagnstekjuskattinn upp í það. En ég mælist auðvitað til þess --- vegna þess að eldra fólk þarf að greiða 38% af lífeyri sínum sem að tveimur þriðju hlutum er ekkert annað en fjármagnstekjur --- að hæstv. fjmrh. setjist yfir það hvort ekki eigi að gæta jafnræðis milli fjármagnstekna og að þá sé greiddur 10% skattur af lífeyri einnig svo dæmi sé tekið.

Kannski má í hnotskurn sjá það sem við erum að tala um hérna þegar við tölum um ójafnrétti í skattbyrðinni og að meira réttlæti skorti í skattstefnu ríkisstjórnarinnar, sem ég tel reyndar kolranga, að fjárlagafrv. endurspeglar það sem ég er hér að segja með hækkun á sköttum almenns launafólks og tryggingagjaldi umfram verðlagsbreytingar upp á 7 milljarða kr., lækkun á fyrirtæki, hátekju- og stóreignafólki upp á mínus 4,6 milljarða og hækkun skatttekna af óbreyttum skattalögum upp á 8,4 milljarða. Þetta eru tölur sem ASÍ hefur verið að setja fram.

Þessu vildi ég halda til haga, herra forseti, út af þeim orðum sem fram komu hjá hæstv. fjmrh. í andsvari við mínu máli vegna þess að þetta eru staðreyndir málsins sem ekki er hægt að mótmæla.