Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:38:39 (1288)

2002-11-12 13:38:39# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég harma á hve ómálefnalegan hátt hæstv. ráðherra tekur á málinu, talar um þetta sem uppákomu, fljótfærni af okkar hálfu án þess að við höfum kynnt okkur málin, að við setjum mál okkar fram með stóryrðum og gífuryrðum. Ekkert af þessu er rétt. Við höfum vísað í samþykkt Alþjóðalæknasamtakanna. Ég er með hana hér og ég hef farið í gegnum hana. Ég hef kynnt mér umræðu um þetta efni í Læknablaðinu. Ég hef rætt við forsvarsmenn læknasamtakanna og vitnað í orð þeirra.

Í þessari yfirlýsingu er mjög afdráttarlaus afstaða tekin. Það er hins vegar hægt að gera undantekningu frá því sem þar kemur fram, og ég vil vitna í orð Jóns Snædals, varaformanns Læknafélags Íslands, á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Frá þessu geta verið undantekningar sem gert er ráð fyrir að séu afmarkaðar svo sem ef lög leyfa sem að öðru leyti uppfylla ákvæði yfirlýsingarinnar. Ég fæ ekki séð að þessar undantekningar eigi við um íslenska gagnagrunninn, enda erfitt að halda fram að svo yfirgripsmikill grunnur geti talist afmarkað tilfelli.`` --- Þetta segir Jón Snædal, varaformaður Læknafélags Íslands.

Þetta eru engin gífuryrði, þetta eru engin stóryrði, þetta er ekki sett fram að óathuguðu máli. Við erum einfaldlega að óska eftir því að Alþingi taki þetta mál til málefnalegrar skoðunar.