Samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 13:44:36 (1292)

2002-11-12 13:44:36# 128. lþ. 27.91 fundur 234#B samþykkt Alþjóðasambands lækna um notkun gagnagrunna á heilbrigðissviði# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. iðn.- og viðskrh. og settur heilbrrh. er alveg einstaklega lagin við að henda sprengjum í allar áttir hvar sem hún kemur höndum á þær. Það eru náttúruvísindamenn einn daginn og síðan eru það þá þingmenn, læknar og heilbrigðisstéttirnar hinn daginn. Ég ætla því að vona að það þurfi ekki að ganga yfir fleiri málaflokka að hæstv. iðn.- og viðskrh. verði sett tímabundið yfir þá. Það er alveg nóg að hún ráði húsum í iðn.- og viðskrn. þó að hún leggi ekki allt í rúst víðar.

Ég gerði ekki annað, herra forseti, en að vitna orðrétt og beint í fern ummæli, fjögur lýsingarorð sem hæstv. ráðherra notaði áðan. Hæstv. ráðherra talaði um upphlaup, hæstv. ráðherra talaði um stóryrði, hæstv. ráðherra talaði um fljótfærni og hæstv. ráðherra talaði um gífuryrði og bætti svo nokkru við í seinni ræðu sinni, hryssingslegur og eitthvað fleira í þeim dúr. Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðherra að menn hafi bara setið við útvarpstækin og hlustað á fréttirnar í hádeginu. Málið á sér þó nokkurn aðdraganda og hefur verið til umfjöllunar núna í nokkra sólarhringa og lengur í tímaritum og beðið hefur verið eftir þessari niðurstöðu alþjóðalæknasamtakanna. Nú liggur hún fyrir og það sem hér hefur verið gert er að vitna til hennar, vitna til mats sérfræðinga á þeirri niðurstöðu, talsmanna læknafélagsins o.s.frv. Það fellur því algerlega um sjálft sig hjá hæstv. ráðherra að hér hafi á nokkurn annan hátt en fullkomlega málefnalegan verið vikið að þessu máli. Það er fullgilt og málefnalegt að Alþingi taki þetta mál nú fyrir. Þetta er mikið alvörumál. Ef svo reynist að þessi lagasetning samrýmist ekki alþjóðlega viðurkenndum siðareglum á þessu sviði þá er það auðvitað stóralvarlegt mál sem Alþingi hlýtur að taka alvarlega, skárra væri það nú. Þess vegna verður hæstv. ráðherra að endurskoða viðbrögð sín og reyna að koma sér í betra skap til þess að vera samræðuhæf um málið.