Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:13:49 (1295)

2002-11-12 14:13:49# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé tæpast deiluatriði að til bóta er að fá endurskoðaða heildarlöggjöf um aðgerðir til verndar hafi og ströndum þó að sú löggjöf sem þessi á að leysa af hólmi, lög um varnir gegn mengun sjávar, hafi á margan hátt verið hin merkasta löggjöf og dugað í sjálfu sér ágætlega sem slík og mest starf verið unnið í gegnum tíðina af þeim aðilum sem fóru með þá hluti, mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar á einni tíð sem síðan varð að deild í umhvrn. o.s.frv. Það eru þó á ferðinni í þessu frv. allmörg nýmæli sem tvímælalaust eru til bóta og tímabært var að fá inn í íslenskan rétt. Þar nefni ég t.d. skilgreiningar á hugtökum. Þar nefni ég mengunarbótaregluna, að sá sem veldur mengun sé skilyrðislaust ábyrgur fyrir henni og beri að greiða kostnað sem af henni hlýst og þar með nefni ég líka íhlutunaratriði eða sterkari stöðu stjórnvalda til að grípa inn í til þess fyrst og fremst að reyna að fyrirbyggja að mengun verði og/eða þá til þess að hreinsa upp ef slys hafa orðið. Þetta eru, til að nefna eitthvað, atriði sem mér koma í hug og eru af hinu góða.

[14:15]

Málaflokkurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Ísland. Um það þarf tæpast að deila. Ég held að segja megi, til þess að halda því til haga sem vel er gert, að á heildina litið hafi Íslendingar staðið sig nokkuð vel á þessu sviði, verið sæmilega vakandi, virkir í alþjóðasamstarfi og stundum jafnvel verið leiðandi í að berjast gegn mengun hafsins. Við höfum yfirleitt gerst aðilar að alþjóðasamningum á þessu sviði fljótt, ef ekki beinlínis verið stofnaðilar að þeim eða þátttakendur í að gera þá. Við höfum þannig reynt að sinna þessu þokkalega. Auðvitað má segja að skárra væri það annars. Hvar ætti Ísland yfirleitt að beita sér ef ekki á vaktinni gagnvart aðgerðum til að vernda höfin og tryggja viðgang þeirra auðlinda sem þar eru, að þær mengist ekki og spillist.

Þessi lög byggjast í öllum aðalatriðum á þeim fjölmörgu alþjóðasamningum sem við höfum gegnum tíðina, gegnum Lundúna-, Óslóar- og Parísarsamninga og hvað það nú allt er, gerst aðilar að eða starfað eftir. En þrátt fyrir það er víða pottur brotinn í þessum efnum. Það vitum við. Annars vegar er um að ræða mengun frá landstöðvum sem því miður á sér enn stað í verulegum mæli. Geislavirkur úrgangur er losaður í hafið, t.d. í Sellafield þar sem hæstv. ráðherra var í heimsókn á dögunum. Satt best að segja sýna bresk stjórnvöld ótrúlega forherðingu í samskiptum við nágranna sína í þeim efnum, ekki minnst við Íra en þetta er líka stórt hagsmunamál fyrir Ísland og Noreg, þau lönd í Norðurhöfum sem hafstraumar bera þessa mengun til.

Auðvitað er ýmiss konar mengun frá landstöðvum sem berst til Norðurhafa. Þar er náttúrlega einna alvarlegust, a.m.k. frá líffræðilegu sjónarmiði séð, uppsöfnun þrávirkra efna, þrávirkra lífrænna efna, svonefndra ,,POPs`` sem er skammstöfunina upp á ensku. Á ráðstefnu Heimskautaráðsins í Tromsö í sumar voru settar fram mjög ískyggilegar upplýsingar bæði í máli manna og í gögnum sem þar lágu frammi um nýjar vísbendingar úr lífkeðjunni um áhrif uppsöfnunar þessara þrávirku efna.

Auk þessa berast mengunarefni í hafið frá skipum og umferð á hafinu. Þar er annars vegar um að ræða ýmiss konar losun og mengun vegna umferðar sem menn vita um og er kannski að einhverju leyti nánast óumflýjanlegur fylgifiskur þess að höfin eru fjölfarin. Þar eru miklar siglinga- og flutningaleiðir þó svo betra kunni að vera að hafa flutningana þar en uppi í háloftunum. Hins vegar er líka ástæða til að ætla að í því tilviki séu veruleg undanbrögð frá því að reglum sé framfylgt. Það vill brenna við að sögur heyrist af því að skip dæli út menguðum kjölsjó og jafnvel losuð séu í hafið svo lítið beri á ýmis efni og þá jafnvel vegna þess að það er einfaldlega ódýrara að koma þeim í lóg á ólöglegan hátt með slíkum aðferðum en bera þann kostnað sem förgun hættulegra efna er samfara eins og málum er yfirleitt fyrir komið í dag, þ.e. að sá sem ber ábyrgð á þeim efnum eða menguninni veldur borgi.

Ég vil aðeins gera hér að umtalsefni nokkur atriði, án þess að ég ætli nú að fjölyrða um þetta mál. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst hlutverk hv. nefndar að taka það til skoðunar og fara vel yfir það. Þetta er mikilvæg löggjöf og það er til bóta að frv. hefur farið til umsagnar og fjölmargir aðilar átt þess kost að skoða það og tjá sig um það. Öll þau gögn koma væntanlega til með að liggja fyrir hv. þingnefnd og það er vel. Engu að síður staldraði ég við nokkur atriði sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja um hlutverk Landhelgisgæslunnar í þessum efnum. Það er að sönnu eðlilegt og ekki um annað að ræða, auðvitað sjálfsagt, að Landhelgisgæslan fái eftirlitshlutverkið á höfunum. Þar er ekki öðrum til að dreifa. Umhvrn. er ekki siglandi um úthöfin með sitt eftirlitsbatterí og mengunarvarnaaðilar á landi hafa að sjálfsögðu engin tök á að sinna þar eftirliti. En hefur Landhelgisgæslan það? Hafa menn farið yfir það? Hvert er mat stjórnvalda á því að Landhelgisgæslan geti að óbreyttu bætt þessu hlutverki á sig eða axlað sómasamlega þegar staðan er orðin þannig að það er iðulega ekki nema eitt einasta skip á sjó? Er ekki ástæða til að fara yfir það, m.a. í ljósi þeirra fjárhagserfiðleika sem Landhelgisgæslan hefur búið við, þ.e. skert rekstrarfé og áform Landhelgisgæslunnar um endurnýjun skipakostsins þar sem stefnan hefur verið tekin á að byggja eitt mjög stórt en um leið dýrt skip? Úthald þess verður sömuleiðis mjög dýrt. Ég spyr því: Hafa menn farið yfir þetta? Hvar liggja fyrir áætlanir um hvernig Landhelgisgæslan getur sinnt þessu hlutverki sómasamlega og mynduglega eins og full þörf væri fyrir? Samrýmist þetta áformum Gæslunnar um skipakost og annað í framtíðinni?

Í raun er það svo að Landhelgisgæslan þarf bæði að hafa bolmagn og möguleika til íhlutunar ef svo ber undir. Hún þarf líka að geta sinnt eftirliti og veitt aðhald þannig að af og til séu gerðar prufur, ef svo má að orði komast, farið um borð í skip og kannað hvort öllu sé til haga haldið og rétt upp gefinn sá farmur sem verið er að flytja og annað í þeim dúr. Það þarf líka að vera hægt að taka á tilvikum sem upp koma þegar grunur leikur á beinum brotum á mengunarvarnalöggjöfinni, t.d. því að skip hafi í leyfisleysi dælt menguðum vökva í hafið. Ég hlýt að segja, herra forseti, að ég verð að hafa þó nokkurn fyrirvara á því, miðað við tilfinningu mína fyrir högum Landhelgisgæslunnar um þessar mundir, að hún sé vel í stakk búin til að sinna þessu hlutverki.

Þá kem ég að öðru atriði sem er líka stórt og mikilvægt, þ.e. spurningunni um siglingaleyfið og reglur sem settar eru og gilda um umferð þar sem mengandi efni eiga í hlut. Það er gríðarlega stórt mál sem lítið hefur komist á dagskrá á Íslandi en veldur harðvítugum deilum og miklum átökum víða erlendis. Ég nefni t.d. spurningar um mögulega flutninga á geislavirkum efnum. Ég spyr: Hafa íslensk stjórnvöld skoðað hvaða möguleika við höfum á að friðlýsa algerlega íslensku efnahagslögsöguna fyrir slíkum flutningum? Ég hef ítrekað flutt um það frv. og tel að þjóðarétturinn leyfi okkur að gera það, ekki bara hinn almenni heldur líka lög og alþjóðasamningar um mengunarvarnir. Ég nefni sérstaklega svæðin norðan og vestan við landið. Hvernig verða þessar reglur útbúnar, verður t.d. yfir höfuð leyfð einhver slík umferð um Grænlandssund? Er ekki rétt að banna bara algerlega olíuflutninga og flutninga mengandi efna um Grænlandssund, nema þá sem fara beint til notkunar á austurströnd Grænlands eða á vestanverðu Íslandi eða eitthvað í þeim dúr? Hvað með það ef upp kæmu óskir um að kjarnakleyf efni eða geislavirkur úrgangur yrði fluttur gegnum íslenska sérefnahagslögsögu, yrði slíkt leyft? Ég spyr. Geta ekki þeir sem bera ábyrgð á slíkum úrgangi í okkar heimshluta, fyrst og fremst Bretar og Frakkar og þá aftur Bandaríkjamenn hinum megin, glímt við það mál sjálfir? Væri ekki eðlilegast að í þessum reglum, eða jafnvel bara með lagasetningu hér, yrði íslenska sérefnahagslögsagan bæði vestan og austan við landið, þ.e. Grænlandssundið, og síðan svæðið milli Íslands og Færeyja friðlýst og slík umferð bönnuð þar?

Það væri auðvitað fróðlegt að vita hverja menn telja stöðu Íslands til að beita slíkum aðgerðum. Nú er að sjálfsögðu í gildi siglingafrelsi á heimshöfunum. Það er ljóst að rétturinn til friðsamlegrar gegnumferðar nær upp að 12 mílum. Menn hafa leyfi til beinnar og friðsamlegrar gegnumferðar um sérefnahagslögsögu ríkja en þó geta menn lokað slíkri umferð út að 12 mílum nema þegar í hlut eiga sund þar sem alþjóðleg skipaumferð verður að fara nær landi en 12 mílur. Á móti koma þeir möguleikar og þau réttindi sem menn hafa samkvæmt alþjóðasamningum og þjóðarétti, t.d. til að reyna að fyrirbyggja mengun. Þetta væri fróðlegt að athuga. Ef til vill getur hv. þingnefnd farið betur ofan í saumana á þessum hlutum.

Ég leyfi mér að nefna hér og minna á að fyrir þessari virðulegu stofnun hafa endurtekið legið frv. þar sem gerð hefur verið tillaga um slíka friðlýsingu, friðlýsingu landsins, sérefnahagslögsögunnar og lofthelginnar, reyndar fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum en einnig fyrir flutningum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja og flutningum kjarnakleyfra efna eða geislavirks úrgangs. Þetta eru atriði sem mér finnst eðlilegt að taka til skoðunar og setja í samhengi úr því að hér er verið að taka á dagskrá ný heildarlög um verndun hafs og stranda.

Þá er ég kominn að síðasta atriðinu, herra forseti, sem ég ætlaði lítillega að gera að umtalsefni. Það eru strendurnar. Nú heitir þetta upp á fallega íslensku frumvarp til laga um verndun hafs og stranda. Það er alloft bætt við ,,og stranda`` þegar fjallað er um hlutina í einstökum greinum frv. Það er auðvitað vel. Það dregur hins vegar athyglina að því að strendurnar hafa nokkuð sérstaka stöðu í þessu máli. Þar safnast gjarnan fyrir þessi úrgangur og þessi mengun, þ.e. sú sem flýtur að landi og berst með hafstraumum og rekur á fjörur.

Nú er það útgangspunktur þessa frv., sem eðlilegt er, að mengunarbótareglan gildi. Sá ber ábyrgð á mengun sem henni veldur eftir því sem það verður sannað og því við komið að láta hann axla þá ábyrgð. Að vísu er þarna sett þak á heildarbótaábyrgðina sem þar getur komið til. Það er kannski tryggingafræðilegs eðlis. En hvað með strendurnar? Hver verður staðan þar? Ég spyr nú bara til þess að fræðast. Hver telur hæstv. ráðherra að beri ábyrgð á menguninni á ströndunum þegar hún er þangað komin og í þeim tilvikum að ekki er hægt að sanna hver mengunarvaldurinn var? Hver ber ábyrgð á því að hreinsa strendur? Eru það landeigendur, sveitarfélögin eða er það hið opinbera? Eftirlitið hvílir á herðum hins opinbera. Það er reyndar talað um að menn megi leggja á gjöld til að standa straum af eftirlitinu eða vöktuninni. Hver á að greiða gjaldið hvað strendurnar varðar? Eða er þessi gjaldtaka eingöngu hugsuð fyrir aðila sem geta á sjó valdið mengun sem rekur á fjörur þeirra sem eiga land að sjó og strönd?

Að vísu er það víða svo í sveitum landsins, sem oftast eiga strandlengjuna, að menn hafa tekið höndum saman og sjálfir staðið í hreinsunarátaki. En stundum geta þessir hlutir orðið býsna erfiðir viðfangs og kostnaðarsamir, jafnvel ofvaxnir fámennum sveitarfélögum, svo maður tali nú ekki um einstaka landeigendur sem jafnvel eru engir til staðar á viðkomandi svæðum. Jarðnæðið getur verið í eigu einhverra fjarlægra aðila og hver er þá staðan í þessum efnum? Væri ekki ráð að huga að þessu sérstaklega eftir atvikum og með einhverjum hætti standa sameiginlega á bak við þann kostnað sem af þessu hlýst þannig að það fari ekki jafnóhönduglega hjá okkur eins og með minka- og refaeyðinguna, eyðingu á vargfugli og öðru slíku, sem auðvitað á að vera sameiginlegt viðfangsefni og hæstv. ráðherra er væntanlega kunnugt af því að það heyrir til ráðuneytis hennar? Getur verið að það verði viðfangsefni nokkurra af fámennustu og fátækustu sveitarfélögum landsins að standa straum af slíkum kostnaði? Það er auðvitað algerlega fráleitt og út í hött. Ég ímynda mér að tilefni gæti verið til þess að fara með svipuðum hætti yfir þessi mál hvað varðar strandlengjuna. Það er auðvitað mjög mikilvægt mál að fyrirbyggja mengun og hreinsa til á strandlengjum. Þær hafa sums staðar verið í alveg hörmulegu ástandi, með öllum þeim nælonefnum og drasli sem þar rekur á fjörur. Þetta drasl er furðu lífseigt, fúnar ekki eða brotnar niður með sama hætti og ýmis eldri efni gerðu sem áður rak á fjörur. Mér finnst ástæða til þess, herra forseti, að hugað verði að þessum efnum.

Ég er ekki endilega að krefja hæstv. umhvrh. um svör við þessu nú þegar en ég vildi taka þessi atriði upp, m.a. vegna þess að ég á ekki sæti í hv. umhvn. Ég vona að yfir þessi mál verði farið.