Verndun hafs og stranda

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 14:53:36 (1304)

2002-11-12 14:53:36# 128. lþ. 27.6 fundur 240. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég deili þessum áhyggjum með hv. þm. Umhverfisráðherrar allra Norðurlandanna fóru fyrir skömmu til Múrmansk til að skoða þar stöð sem vinnur með geislavirkan úrgang, Atomflot heitir sú stöð. Okkur leist ekki sérstaklega vel á það sem við sáum þar. Þar hafði maður á tilfinningunni að öryggismál væru ekki í eðlilegum farvegi. Í sömu heimsókn kom fram að Rússar hefðu opnað á að flytja inn 20 þús. tonn af geislavirkum úrgangi frá öðrum ríkjum og ætluðu að fá fyrir það, ef ég man rétt, um 20 milljarða dollara. Manni líst auðvitað ekki á slík plön þegar menn geta ekki haldið utan um sinn eigin úrgang, hvað þá að flytja inn úrgang frá öðrum.

Fjölmörg ríki hafa reynt að aðstoða Rússa við að koma böndum á þennan gamla vanda frá Sovéttímabilinu, geislavirka úrganginn, en það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld munu fylgjast mjög náið með þessu í framtiðinni af því að við teljum það ekki vera okkar hagsmunum til góða að fluttur verði geislavirkur úrgangur nálægt Íslandi, alls ekki.