Endurreisn íslensks skipaiðnaðar

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 16:22:47 (1322)

2002-11-12 16:22:47# 128. lþ. 27.9 fundur 38. mál: #A endurreisn íslensks skipaiðnaðar# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel að með því starfi sem hefur nú farið fram og var góð samstaða um við Samtök iðnaðarins og Málm hafi vissulega komist hreyfing á þetta mál. Mér er kunnugt um að það starf sem þarna fór fram er mikils metið af hálfu greinarinnar og ekki síst það að nú liggur fyrir frv. sem brátt mun koma fram í þinginu um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð þar sem TRÚ, Tryggingasjóði útflutningsgreina, verður gert kleift að sinna þessum málum miklu betur en áður hefur verið og það tel ég vera mjög mikilvægt.

Hv. þm. nefndi byggðastyrki. Það er rétt að öll landsbyggðin er skilgreind þannig af hálfu ESA að þar má veita byggðastyrki og þróunarstyrki sem vissulega þurfa samþykkt ESA til að geta orðið að veruleika. En miðað við þær upplýsingar og þau samtöl sem ég hef átt við iðnaðinn er það nú ekki fyrst og fremst það sem hann vill gera út á, heldur miklu frekar að fá starfsumhverfi sem sé samkeppnishæft því sem almennt gerist. Við vitum hvað varðar t.d. vexti þá eru þeir tiltölulega háir hér á Íslandi. En að öðru leyti tel ég að við eigum vissulega sóknarfæri hvað varðar ákveðna stærð báta og það hefur líka sýnt sig núna upp á síðkastið að þar erum við Íslendingar með okkar skipasmíðastöðvar að fá verkefni sem er mjög ánægjulegt.

Ég tel því að það sem kemur fram í þáltill., eins og ég sagði áðan, sé í raun að verulegu leyti komið til framkvæmda.