Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:02:49 (1328)

2002-11-12 17:02:49# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um eflingu félagslegs forvarnastarfs og er 1. flm. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan felur í sér að unnin verði rammaáætlun um eflingu hvers kyns félagslegs forvarnastarfs sem verði liður í aðgerðum til að þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks um leið og barist er gegn notkun ungmenna á áfengi og fíkniefnum, eins og segir í þáltill.

Einnig kemur fram að í áætluninni felist að gerð verði úttekt á félagsstarfi í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu sem til greina kemur í þessu sambandi svo sem á starfi á vegum félagsmiðstöðva ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar, nemendafélaga, skáta, tómstundafélaga og trúfélaga. Einnig verði gerðar tillögur um hvernig vænlegast sé að efla slíkt starf þannig að árangur náist, eins og segir í tillögunni.

Jafnframt er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum þar sem gert er ráð fyrir að til Forvarnasjóðs verði varið stærra hlutfalli af áfengisgjaldi en nú er eins og ég skildi tillöguna en svo má vera að það sé misskilningur en ég mundi leggja til að það yrði í þá veru til að hækka ekki álögur á almenning, að hækka ekki verð á áfengi sem er nógu hátt fyrir. Það hefði í för með sér að Forvarnasjóður hefði til úthlutunar hærri upphæðir en í dag eða 180 millj kr. á næstu fimm árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að Alþingi verði flutt árleg skýrsla um framkvæmd áætlunarinnar þar sem árangurinn er metinn.

Ég verð að segja að tillagan er góðra gjalda verð en ástæðan fyrir því að ég tek til máls hér er að benda á að nýverið skipaði hæstv. menntmrh. nefnd til að gera úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir jafnframt að hún eigi m.a. að koma með tillögur um hvernig unnt sé að efla þátttöku ungs fólks í félags- og tómstundastarfi, hvernig mögulegt sé að efla æskulýðsrannsóknir hér á landi, á hvern hátt hægt sé að efla menntun og þjálfun leiðbeinenda og félagsforustufólks, hvernig hægt sé að auka hina óformlegu menntun í félags- og tómstundastarfi og tengja hana skólakerfinu og atvinnulífinu og koma með tillögur um atriði sem til athugunar yrðu við endurskoðun á lögum um æskulýðsmál.

Svo vill til að ég var skipuð formaður nefndarinnar og nefndin hefur á að skipa einvala liði fólks sem hefur mikla reynslu af æskulýðs- og tómstundamálum. Ég nefni þar m.a. að í nefndinni á sæti varaformaður UMFÍ, aðstoðarskátahöfðingi og síðan fólk bæði úr Kennaraháskólanum og Háskóla Íslands sem hefur mikla reynslu af rannsóknum á sviði æskulýðsmála. Einnig eru skólastjórar sem hafa víðtæka reynslu á þessu sviði.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili niðurstöðu fyrir 15. febrúar nk. Nefndin hefur þegar tekið til starfa og er núna að safna ýmsum upplýsingum um starfsemi félaga og samtaka sem mundu falla undir skilgreininguna æskulýðs- og tómstundastarf barna og unglinga á vegum sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Hins vegar mun nefndin ekki taka til starfs sem fellur undir íþróttastarf. Það verður að segjast að meðal íþróttafélaga fer fram mjög mikilvægt starf enda hefur því verið haldið fram að tiltölulega flest ungmenni og börn stundi íþróttir í frítíma sínum. Hins vegar er það svo að íþróttir henta ekki öllum börnum og tölur íþróttafélaga benda til þess að tugir þúsunda barna stundi íþróttir en það er jafnframt ljóst að æskulýðsstarfsemi af öðrum toga en þeim sem nefndin er núna að skoða er einnig afar viðamikil og mun m.a. starf nefndarinnar miðast við það að ná utan um hve umfangsmikil þessi starfsemi er.

Þá má nefna að æskulýðsstarfsemi á vegum sveitarfélaga sem er greidd af opinberu fé er mikil og fer vaxandi en á hinn bóginn hefur starfsemi frjálsra félagasamtaka með börnum og unglingum ekki notið á sama máta opinbers stuðnings og annað starf. Því er ljóst að slík starfsemi, þ.e. starfsemi frjálsra félagasamtaka á í vök að verjast einmitt núna vegna samkeppni um börn til þess að eyða tíma sínum utan skóla.

Mig langar að gefa vísbendingu um hversu umfangið í þessu starfi er mikið, að það fer fram æskulýðsstarfsemi innan ungmennafélaga, innan kirkjunnar og annarra trúfélaga, meðal kristilegra samtaka, meðal stjórnmálasamtaka, alþjóðlegra samtaka um ungmennaskipti, bindindisfélaga, skáta-, útivistar- og hjálparstarfs og einnig samtaka þeirra sem búa við fötlun. Og síðast en ekki síst innan grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla og ég nefni háskóla í þessu sambandi vegna þess að æskulýðsstarf hefur oft verið skilgreint sem starf með þeim ungmennum sem eru upp að 25 ára og jafnvel upp í 30 ára aldur. Þá er starfsemi á vegum sveitarfélaga mjög viðamikil og má nefna t.d. að á Austurlandi hafa kannanir sýnt að 80% barna í grunnskóla sækja félagsmiðstöðvarnar sem er mjög hátt hlutfall. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að æskulýðsstarf af þessum toga skiptir afar miklu máli fyrir börn og ungmenni. Í slíku starfi fá þau tækifæri til þess að efla félagsþroska sinn, samskiptahæfni, leiðtogahæfileika og almennt tengsl jafnaldra um leið og þau nýta tómstundir sínar til þess að sinna viðfangsefnum að eigin vali sem vekja áhuga þeirra. Og það benda allar rannsóknir til þess að ungmenni sem nota tómstundir sínar til slíkra starfa séu líklegri til að temja sér heilbrigða lífshætti og sneiða hjá aðstæðum sem leiða til eyðileggjandi hegðunar og neyslu.

Í þeirri nefnd sem ég er formaður fyrir og hef rætt hér um höfum við töluvert verið að velta fyrir okkur þróun æskulýðsstarfs í landinu og áherslum á hverjum tíma. Það er t.d. áhugavert að skoða hvaða áhrif skipulagt starf á vegum sveitarfélaga, sem víða er orðið afar viðamikið, hefur á starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði æskulýðsmála. Þessi frjálsu félagasamtök byggja yfirleitt á sjálfboðaliðastarfi, og eiginlega fyrst og fremst þannig, og þau voru lengst af á síðustu öld uppistaðan í æskulýðsstarfi hér á landi en eru núna í mikilli samkeppni við sveitarfélögin sem hafa launaða starfsmenn til að byggja upp tómstundastarf fyrir börn og unglinga. Það er alveg ljóst að það verður að reyna að finna eitthvert eðlilegt jafnvægi á milli starfsemi frjálsra félagasamtaka sem byggja að mestu á sjálfboðaliðastarfi og starfsemi hins opinbera á þessu sama sviði þannig að hin frjálsa félagastarfsemi, sem byggir á mjög góðum gildum, fái ákveðið rými og tækifæri til að vaxa og þróast við hlið hins opinbera starfs, en það er alveg ljóst af fundum okkar með fulltrúum þessara samtaka að þau eiga í vök að verjast. Þau geta illa keppt við hið opinbera fjármagn og mörg þeirra sjá fram á það að nýliðun í starfsemi sé að minnka.

Opinber stuðningur við frjáls félagasamtök er afar tilviljanakenndur svo ekki sé meira sagt og það er von mín að hægt sé að setja ákveðnar reglur sem tryggi jafnræði í þessum efnum. Gróflega áætlað, með því að kíkja yfir fjárlögin, má segja að um 100 millj. kr. af fjárlögum síðasta árs hafi verið varið til æskulýðs- og tómstundastarfa til frjálsra félagasamtaka en það er aðeins brot af því fjármagni sem þessi félög nýta. Oft hefur verið notuð sú þumalputtaregla að fyrir hverja eina krónu sem ríkið leggur til eru 8--10 kr. sem félagasamtökin sjálf leggja til og það er mjög góð nýting á fjármagni ef það margfaldar sig á þennan máta. Í þessum 100 millj. er ekki verið að ræða um íþróttastarfsemi því að eins og ég hef bent á nýtur íþróttastarfsemi fjármagns frá lottói og getraunastarfsemi.

Jafnframt vil ég nefna að það fjármagn sem t.d. sveitarfélögin leggja til æskulýðsstarfa var 900 millj. kr. árið 2000 sem er gríðarlega mikið fjármagn og til þeirrar skipulögðu starfsemi sem er reyndar mjög mikilvæg.

Ég vil að lokum lýsa því yfir að það starf sem kallað er eftir í þessari þáltill. er þegar farið af stað að hluta til þó að það sé eingöngu það sem snýr að æskulýðs- og tómstundastarfi en ekki íþróttastarfi, en ég vænti mikils af niðurstöðu nefndarinnar og ég veit að það er mikið horft til hennar núna í samfélaginu.