Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 12. nóvember 2002, kl. 17:20:22 (1331)

2002-11-12 17:20:22# 128. lþ. 27.10 fundur 40. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., 41. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (forvarnasjóður) frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 128. lþ.

[17:20]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þessa tillögu og þær gagnlegu ábendingar og þau sjónarmið sem komið hafa fram og aðeins bregðast við nokkrum atriðum í því sambandi.

Í fyrsta lagi ræddi hv. þm. Ásta Möller, 19. þm. Reykv., um nokkur atriði málsins. Ég vil fyrst nefna að eins og tillagan er fram sett og frv. þá er gert ráð fyrir að um færslu á áfengisgjaldi úr ríkissjóði yfir í Forvarnasjóð sé að ræða, samanber orðanna hljóðan: Af innheimtu áfengisgjaldi o.s.frv. skal á tímabilinu greiða þetta og þetta. Það er því alveg ljóst að hækkun áfengisgjaldsins væri sjálfstæð ákvörðun og þetta mál leggur hana ekki til. Það er svo sjálfstætt atriði og ég hef aldrei verið í þeim hópi sem hefur verið neitt feiminn við það að rökstyðja hátt áfengisgjald einfaldlega til þess að sú vara sé ekki höfð allt of ódýr og aðgengileg þó að deila megi endalaust um það hvar á að draga mörkin.

Hv. þm. upplýsti síðan að hæstv. menntmrh. hefði skipað nefnd til þess að fara yfir æskulýðs- og tómstundastarf og sumt af því sem hún taldi upp í verkefnum þeirrar nefndar, innan verksviðs hennar, er sambærilegt við það sem komið er inn á í tillögunni og það er gott og vel. Ég fagna því að sá hluti málsins er þó á hreyfingu en mér sýnist ljóst að tillagan eins og við leggjum hana upp um alhliða eflingu félagslegs forvarnastarfs þar sem í raun og veru allt er undir, þar sem íþróttastarfsemin er líka undir, þar sem þáttur sveitarfélaganna er tekinn með, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, það er náttúrlega nálgun á málinu sem byggir á mjög víðtækum grunni, að reynt verði að kortleggja gildi þessa félagslega forvarnastarfs í heild sinni í landinu.

Að einhverju leyti hefur þessi nefnd kannski sótt sér efnivið í það frumkvæði sem fólst í þessum tillöguflutningi á sínum tíma og er það vel. En ég ætla þá líka að vera algerlega hreinskilinn og segja að maður hefði gjarnan viljað vita af því að það ætti að setja þá nefnd á laggirnar. Ég var ekki beðinn um að sitja í henni eða minn flokkur að leggja henni til starfskrafta. Það hefði kannski margt verið vitlausara en það. En því miður er það þannig, herra forseti, að ekki er mikið til siðs að leita eftir starfskröftum stjórnarandstöðunnar í málum af þessu tagi. Það er undarlegur plagsiður sem hér ríður húsum hjá núv. ríkisstjórn og hefur reyndar verið að ágerast mjög seinni árin að í starfi af þessu tagi, þegar skipaðar eru nefndir til að fjalla jafnvel um mál sem ættu að vera tiltölulega óumdeild og menn ættu ekki að þurfa að láta hvarfla að sér flokkspólitíska skiptingu eða stjórn og stjórnarandstöðu eða annað því um líkt, heldur fagna liðsinni allra góðra manna við málin og þar á meðal úr öllum fylkingum í stjórnmálunum, þá skipar ríkisstjórnin hverja stjórnskipuðu nefndina á fætur annarri, hvern starfshópinn á fætur öðrum þar sem eru þingmenn stjórnarliðsins og síðan eftir atvikum einhverjir embættismenn eða aðilar úr þjóðfélaginu en aldrei talað við stjórnarandstöðuna, ekki heldur þó að hún hafi haft frumkvæði að góðum málum og lagt einhverja vinnu af mörkum sem vel mætti notast við.

Á bak við þessa tillögu liggur þó nokkur skoðun á málinu. Til að mynda var haft dálítið fyrir því að draga að upplýsingar um starfsemi félagsmiðstöðvanna og að hluta til er kveikjan að tillögunni ættuð úr þeirri átt að starfsfólk á félagsmiðstöðvum hefur borið sig upp undan aðstæðum sínum þar sem því er oft og tíðum mjög naumt skammtaðar fjárveitingar, það verður að byggja meira og minna á samskotum eða fjársöfnunum ef á að gera nokkurn skapaðan hlut út fyrir það fasta, og oft og tíðum er framlag sveitarfélaganna, og ég er ekki að gagnrýna sveitarfélögin því að þau eru í miklum erfiðleikum víða með sinn rekstur, í raun og veru launin hjá fastráðnu starfsfólki. Í mörgum tilvikum er það þannig og menn eru jafnvel að reyna að snapa sér húsnæði eða að fá inni einhvers staðar ókeypis. Sums staðar er það kannski lagt fram en þegar það er skoðað fer alveg ótrúlega hátt hlutfall af þeim fjárveitingum sem rennur til félagsmiðstöðvanna í beinan launakostnað þannig að það er nánast ekkert eftir til uppbyggingar starfseminni hvað varðar efnivið eða möguleika til að gera spennandi hluti sem er auðvitað nauðsynlegt ef á að gera þetta starf lifandi og áhugavert og aðlaðandi. Sama gildir um marga aðra starfsemi sem hér á undir, að ef hún er rekin af of miklum vanefnum þá er erfiðara að kveikja áhugann og draga fólk að. Ég segi það því í fullri hreinskilni að ég hefði t.d. fagnað því ef þess hefði gefist kostur að taka þátt í þessu nefndarstarfi og reyna að leggja lið í því að skoða þessi mál og koma þar fram með einhverjar uppbyggilegar tillögur. En sú öldin er ekki mikið uppi, herra forseti, að leitað sé til stjórnarandstöðunnar um þátttöku í einhvers konar stefnumótun eða nefndarstarfi af þessu tagi nema þegar um einhver óþægileg eða erfið viðfangsefni er að ræða. Þá bregður gjarnan svo við að hóað er í stjórnarandstöðuna og henni býðst að vera með. Svona er þetta nú, herra forseti. Þannig er lýðræðisþroskinn í þessum efnum og það má fara yfir það, og ég stend við þau orð, að þessu hefur stórhrakað núna á síðari árum, sérstaklega í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar þar sem viðleitni til þverpólitísks samráðs og samstarfs í þjóðfélaginu um stefnumótun í mikilsverðum málaflokkum hefur meira og minna verið slegið af. Það má fara yfir hvert sviðið á fætur öðru þar sem hefð var fyrir því að skipa þverpólitískar nefndir á grundvelli þess þroska að stjórnir koma og fara, meiri hlutar og minni hlutar skiptast á á víxl og það er mikilvægt að í þjóðfélaginu ríki sæmileg sátt um grundvallarleikreglur eftir því sem kostur er. Til þess að ná því fram er æskilegt að sem flestir komi að borðinu.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefndi íþróttastarfsemina og einnig mikilvægi skólanna í þessu sambandi. Það er hárrétt sem fram kom í máli hennar að auðvitað er forvarnagildi þátttöku í íþróttastarfi kannski takmarkað m.a. af þeim ástæðum að brottfall er mjög mikið á ákveðnu aldursbili. Það þekkjum við. Það fækkar mjög í flokkum oft á aldursbilinu 12--15 ára, jafnvel þannig að í íþróttfélög sem halda úti blómlegu starfi fyrir yngstu aldurshópana fara að koma göt og jafnvel detta alveg út aldursflokkarnir á bilinu 12--16 ára vegna þess að þá er brottfall svo mikið. Þar af leiðandi er að sjálfsögðu ekki sjálfgefið að þeir sem í raun og veru hefðu mesta þörf fyrir að vera í slíku starfi ílengist þar, en þó held ég að allur gangur sé á því og það ber að fagna því og styðja við það þó sem gert er í þessum efnum. Svo er náttúrlega spurningin: Eru kannski aðstæðurnar sem þessi starfsemi býr við á köflum ekki þannig að það sé nægilega auðvelt að gera það áhugavert að vera með? Inn í það kemur auðvitað kostnaðurinn. Það þekkja allir foreldrar sem hafa tekið þátt í starfsemi foreldrafélaga eða starfsemi íþróttafélaga að það er mjög tilfinnanlegt hversu miklum kostnaði er þar velt yfir á foreldrana sem óumflýjanlega veldur því að tekjulágar fjölskyldur geta átt í miklum erfiðleikum með að skapa börnum sínum sömu möguleika til þátttöku eins og þær sem betur eru settar. Þegar þessar greiðslur, æfingagjöld og kostnaður vegna hverrar einustu keppnisferðar eða móts bætist við það sem fyrir er þá er verulega farið að draga um þar. Það er alveg á hreinu.

Fyrir nokkrum árum varð sú breyting á í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að íþróttamálefni fluttust til sveitarfélaganna, þ.e. stofnkostnaður við íþróttamannvirki og almennt stuðningur við íþróttastarfsemina að slepptu því sem ríkið leggur til landssamtaka og landsmannvirkja, færðist til sveitarfélaga. Og þá er komið að því sem hv. þm. Vigdís Sveinbjörnsdóttir ræddi áðan að staða sveitarfélaganna er auðvitað mjög ólík og mjög mismunandi til að standa myndarlega við bakið á þessum hlutum. Enginn vafi er á því að þar sem sveitarfélög eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, þá er hættan sú að ekki sé hægt að hlúa að þessari starfsemi eins vel og skyldi. Ég er algerlega sammála hv. þm. Vigdísi Sveinbjörnsdóttur að eitt mikilvægt atriði í þessum efnum er að sveitarfélögin séu í stakk búin til þess að standa mjög vel að sínum hlut, enda var það ein af þeim breytingum sem gerð var á tillögunni frá síðasta þingi að þáttur sveitarfélagana er þar nú sérstaklega nefndur, m.a. vegna góðra ábendinga sem komu um það að mjög mikilvægt væri að fá sveitarfélögin með til virkari þátttöku í þessum efnum. Ég er síður en svo að gera því skóna að á þeim standi nema þvert á móti því að ég veit t.d. að Samband ísl. sveitarfélaga er áhugasamt um að leggja þessum málum lið.

Að síðustu, herra forseti, vil ég segja að þessi tillaga er að sjálfsögðu ekki hugsuð sem nein allsherjarlausn í þessum málum. Það er fjarri því. Þetta er eingöngu liður í aðgerðum sem þurfa að vera margþættar og í raun og veru á öllum sviðum þar sem einhver von er til að ná árangri. Ég held að líta eigi þannig á þann háska sem fólginn er í misnotkun áfengis og vímuefna og sérstaklega þegar ungt fólk á í hlut sem þvílíkt samfélagsmein og af þeirri stærðargráðu að mönnum sé beinlínis skylt að leita allra leiða og að berjast á öllum vígstöðvum þar sem von er til þess að árangur náist. Auðvitað þarf númer eitt, tvö og þrjú að virkja heimili, skóla, vinnustaði, stjórnvöld, ríki og sveitarfélög og félagasamtök til þátttöku í aðgerðum, fjölþættum aðgerðum á öllum sviðum. Öðruvísi mun ekki nást neinn árangur í þessum efnum og það verður aldrei hægt að girða landið þannig af að við getum lifað í einangruðu sæluríki þar sem þessi efni fyrirfinnast ekki af því að þau komist ekki til landsins. Áfengið er nú einu sinni löglegur vímugjafi og allt það. En sem liður í aðgerðum á þessu sviði þá er ég nokkur sannfærður um að áætlun af þessu tagi, að fjárstuðningur af þessu tagi gæti skilað mjög miklum árangri og margþættum árangri, orðið til góðs á mörgum sviðum og þá auðvitað og ekki síst í glímunni við þessa vímugjafa sem fyrirbyggjandi eða forvarnaaðgerðir.