Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:57:30 (1375)

2002-11-13 14:57:30# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um gjaldskrá tannlæknaþjónustu, hvort gengið hefði verið frá samningum milli Tryggingastofnunar og tannlækna um gjaldskrá fyrir endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Ef svo væri, hvað fælist í þeim samningi, ef ekki, hvenær mætti vænta breytinga á gildandi gjaldskrá Tryggingastofnunar fyrir tannlæknaþjónustu.

Staðan var sú þegar ég lagði fram þá fyrirspurn að ekki höfðu verið í gildi samningar milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar í fjögur ár eða síðan 1998 hvað varðaði kostnaðarþátttöku ríkisins í tannlæknakostnaði barna, unglinga og lífeyrisþega. Í lok janúar 1999, fyrir þremur árum, gaf Tryggingastofnun út einhliða gjaldskrá sem lögð var til grundvallar útreikningi á endurgreiðslum til sjúklinga vegna þjónustu tannlækna. Verðlagning tannlækna er frjáls þannig að í þeim tilvikum sem gjaldskrá tannlæknis var hærri en sú gjaldskrá sem Tryggingastofnun hafði ákveðið greiddu sjúklingar mismuninn. Þetta fyrirkomulag leiddi til þess að kostnaður sjúklinga var mun hærri en hann hefði verið ef allt hefði verið með eðlilegum hætti og samningar lægju fyrir á milli tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafði þetta ástand í för með sér að verulega dró úr nauðsynlegum komum til tannlækna og oft og tíðum var það dregið svo lengi að í óefni var komið og var þá sama hvort um var að ræða börn, ungmenni eða lífeyrisþega. Í fjögur ár hefur það ástand ríkt að ekki var gengið frá samningum við tannlækna og má ætla að á þeim tíma sem ríkisvaldið hefur trassað að ganga frá þessum samningum hafi kostnaður upp á hundruð milljóna króna lagst á fjölskyldur, barnafjölskyldur og ellilífeyrisþega, sem ríkið hefði með réttu átt að bera.

Nú hefur verið gengið frá samningi milli Tryggingastofnunar og Tannlæknafélags Íslands sem hækkar endurgreiðsluhlutfallið um allt að 22% frá næstu áramótum. Endurgreiðslan hækkar þó misjafnlega mikið eftir gjaldskrárliðum. Ég hef ekki séð útreikninga á því hver verður þá hlutur sjúklings ef tekið er mið af meðaltalsgjaldskrá tannlækna en án efa mun ráðherra fara yfir það hér á eftir þegar hann svarar fyrirspurn minni hvað þessir samningar fela í sér.