Fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:56:20 (1426)

2002-11-13 17:56:20# 128. lþ. 29.16 fundur 252. mál: #A fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:56]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Vöxtur ferðaþjónustu hefur verið mikill á síðustu árum. Á árunum 1996--1999 óx hún að meðaltali um 7,8% á ári en landsframleiðslan aðeins um 4,7% sem sýnir að stór hluti í aukningu á landsframleiðslu kemur frá ferðaþjónustu. Í ár er talið að um 300 þúsund erlendir gestir komi til landsins.

Ef meðaltalsaukning síðustu 20 ára er framreiknuð til næstu 20 ára yrðu þeir árið 2020 orðnir 1,3 millj. Alþjóðastofnanir á þessu sviði reikna með að lágmarki 3,8% aukningu á ári til landanna í Norður-Evrópu og Skandinavíu. Miðað við þær áætlanir yrðu gestir um 750 þúsund árið 2020 hér á landi.

Ferðaþjónustan skaffar nú um 13% allra útflutningstekna eða 37--40 milljarða kr. á ári og hefur vaxið mjög hin síðari ár. En vandi ferðaþjónustunnar er sá að hún á engan höfuðstól og litlar eignir í mannvirkjum eða markaðsstarfi. Hún hefur byggst upp úr litlum fjölskyldufyrirtækjum sem hafa tvöfaldast að vexti á sl. tíu árum. Aðgengi að stofnfé hefur verið mjög takmarkað og því hefur nánast allt fjármagn verið sótt innan úr fyrirtækjunum sjálfum. Lánsfé hefur verið frá Byggðastofnun, Ferðamálasjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Lánsfé hefur verið bundið með veði í fasteignum en þeir sem hafa staðið í afþreyingariðnaði eða markaðsstarfi hafa ekkert til að veðsetja og því ekkert aðgengi að neinu lánsfé. Það lánsfé sem hefur verið til fáanlegt hefur verið til skamms tíma og vextir háir. Þessa grein vantar sárlega stofnfé og hana vantar þolinmótt fé. Hana vantar stofn til þess að byggja á. Aðrar atvinnugreinar í landinu búa á eignum og hefðum í gegnum áratugina og jafnvel aldirnar.

Til þess að greina þessi mál, herra forseti, hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. samgrh.:

1. Er til yfirlit yfir fjárhagsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu, þar með talinna aðila sem bjóða upp á gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn? Ef svo er, hvernig er fjárhagsstaða fyrirtækjanna, sundurliðað eftir landsvæðum og greinum ferðaþjónustunnar?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að gerð verði vönduð úttekt á þessum málum?

3. Kemur til greina að ríkisvaldið beiti sér fyrir endurfjármögnun og skuldbreytingum í ferðaþjónustunni til að styrkja atvinnugreinina?

Herra forseti. Ég hef þungar áhyggjur af fjárhagsstöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við sem byggjum mjög á þeirri atvinnugrein og berum til hennar miklar væntingar höfum þungar áhyggjur því ferðaþjónustuna vantar sárlega stofnfé. Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef lagt fram.