Áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 19:11:25 (1456)

2002-11-13 19:11:25# 128. lþ. 29.24 fundur 320. mál: #A áhrif nýs launakerfis á launamun kynjanna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[19:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi gat um, að í yfirlýsingum í kjarasamningum 1997 var gefið fyrirheit um að láta fara fram úttekt á þeim áhrifum sem nýtt launakerfi og mismunandi áherslur og meira sjálfstæði stofnana kynni að hafa á launamun karla og kvenna. Það er líka rétt að því miður hefur ríkinu ekki tekist sem skyldi að fylgja þessari yfirlýsingu eftir. Skýringin á því er sú að sú flokkun starfa sem fyrir hendi er hjá ríkinu er ekki viðunandi að þessu leyti og gefur ekki nægar upplýsingar til að sá aðili sem beðinn var um að taka þetta verk að sér, þ.e. Félagsvísindastofnun Háskólans, teldi sig hafa forsendur til þess þannig að fullnægjandi væri.

Það hefur komið í ljós að eftir að kjarasamningarnir árið 1997 voru samþykktir þá féllu út ýmis starfsheiti. Hugmyndin var að taka upp nýja starfaflokkun á grundvelli hins svokallaða íslenska starfaflokkunarkerfis, ÍSTARF 95. Þetta hefur ekki, eins og ég segi, náð fram að ganga en nú hefur Hagstofa Íslands ráðið sér starfsmann sem þekkir vel til starfaflokkunar. Sá starfsmaður hefur nýlega hafið störf að mér skilst og langtímaverkefni viðkomandi starfsmanns verður m.a. að endurskoða starfaflokkunarkerfið í samræmi við þá endurskoðun sem farið hefur fram í þeim efnum í Evrópu.

Vandinn við okkar starfaflokkunarkerfi og þann vísi að því sem til hefur verið er sá að gæðin eru ekki nógu mikil og mismunandi milli stofnana. Það sem helst ræður því að rangt er flokkað er að menntun viðkomandi starfsmanns ræður flokkuninni jafnvel þó að viðkomandi starfi ekki við sérmenntun sína. Þegar búið er að skrá viðkomandi starfsmann í tiltekinn starfaflokk er því ekki breytt samkvæmt viðkomandi kerfi þó viðkomandi skipti um starf hjá ríkinu og fari jafnvel í gerólíkt starf. Þannig hefur það verið ýmsum vandkvæðum bundið að framfylgja þessari yfirlýsingu. Ég tel eigi að síður rétt að reyna að ljúka þessu verkefni þó að þetta hafi kannski ekki verið áherslumál í þeim kjarasamningum sem gerðir voru árið 2000 með sama hætti og árið 1997. Það er jafnframt ljóst að Reykjavíkurborg er komin lengra í þessum málum en ríkið og hefur náð að flokka störf sín betur í samræmi við ÍSTARF 95 að því er mér er tjáð.

Hér er ákveðið verk að vinna sem þingmaðurinn bendir á og ég vænti þess að við getum náð að ljúka því á okkar vettvangi þegar búið verður að skapa þann grunn sem nauðsynlegur er fyrir starfaflokkunina.

Ég vona að þingmaðurinn sætti sig við þessi svör þó að líklega sé hún ekki ánægð með innihaldið.