Textun íslensks sjónvarpsefnis

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:59:06 (1506)

2002-11-14 12:59:06# 128. lþ. 30.10 fundur 339. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:59]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft afar brýnu og þörfu máli sem hefur reglulega verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi frá því að ég tók hér sæti án þess þó að mikill árangur hafi orðið eins og hv. þm. Pétur Bjarnason benti réttilega á. Hér hafa verið fluttar tillögur í þá veru að sjónvarpsefni yrði textað. Sömuleiðis hefur verið mikill þrýstingur í þá átt að táknmál yrði viðurkennt sem tungumál tiltekins hóps, þess hóps heyrnarlausra sem ekki getur nýtt sér aðra möguleika. Ég hef tekið þátt í slíkri umræðu og flutt sum þessara þingmála og einnig fyrirspurna til að kalla frekar fram þekkingu þingheims á aðstæðum þessa fólks. Nú síðast kallaði ég með fyrirspurnum eftir stöðu þeirra barna sem eiga við heyrnardeyfu að stríða innan grunnskólans, bæði hvað varðar fjölda þeirra og sömuleiðis hvort vilji væri fyrir því að mæta þörfum þeirra nemenda með hljóðkerfum í skólastofum. Málið hefur því með ýmsum hætti komið á dagskrá Alþingis án þess þó eins og ég gat um að það leiddi til markverðrar eða fullnægjandi niðurstöðu.

[13:00]

Ljóst er að staða heyrnarlausra og heyrnardaufra er að mörgu leyti verri en annarra hópa sem eiga við fötlun að stríða hér á landi. Ef við berum saman möguleika þessa fólks og árangurinn sem það hefur náð, þó við einangrum okkur bara við skólakerfið og berum það saman við ýmsa aðra hópa, er augljóst að þessi hópur þarf sérstakra ráðstafana við, ráðstafana sem samfélagið hefur því miður ekki enn verið tilbúið að grípa til.

Flutningsmaður gat hér um stöðu aldraðra sem eru farnir að missa heyrn og hefðu gagn af texta. Ég gat um heyrnardauf börn. Við vitum að ákveðinn hópur barna og ungmenna í okkar samfélagi hefur, m.a. vegna eyrnabólgu, ekki fulla heyrn og nýtur þess vegna ekki að fullu kennslu í kennslustofum. Þau hefðu mikið gagn af þeim stuðningi sem í textanum felst.

Herra forseti. Aftur og aftur hafa málefni Heyrnar- og talmeinastöðvar komið á dagskrá þingsins, ýmist með fyrirspurnum eða með öðrum hætti. Þar hefur málum verið háttað þannig undanfarin ár að biðlistar hafa verið langir og biðin eftir þjónustu og viðhlítandi úrlausn þar með er óþolandi löng, að ég tali ekki um þá þjónustu sem landsbyggðin hefur fengið.

Ég vildi, herra forseti, leggja orð í belg fyrst þessu ágæta máli er hreyft og lýsi fullum stuðningi við að farið verði að því sem þarna er lagt til, þ.e. að menn hraði þessu. Auðvitað væri æskilegt að íslenskt sjónvarp setti sér markmið svipað og annars staðar hefur verið gert, að menn hefðu þann metnað til að bera að setja sér ákveðin markmið í þessum efnum sem þeir reyndu síðan að uppfylla.

Vegna þeirrar umfjöllunar sem hv. flm. gat um, varðandi tækni sem gæti textað nánast jafnhliða hinu talaða orði þá held ég að það standi kannski enskunni frekar fyrir þrifum hvað hún er lítið hljóðrétt og hve mörg tákn eru í rauninni borin fram á mismunandi vegu. Íslenskan er þó tiltölulega hljóðrétt tungumál. Þar af leiðandi ættum við að geta náð þokkalegum árangri, a.m.k. varðandi hráþýðingu.

Ákveðinn hópur heyrnarlausra nýtir sér þó ekki textun nema að hluta af því að fólk þarf á táknmálstúlkun að halda. Hér er ekki, herra forseti, verið að fara fram með ýtrustu kröfur. Hér er fyrst og fremst farið fram með þá kröfu að stærri hópur þeirra sem eiga við þessa fötlun að stríða fái notið þeirra mannréttinda sem felast í að fylgjast með þjóðmálaumræðu og geta notið sjónvarpsefnis, hvort sem um er að ræða fræðslu eða afþreyingu. Síðan er auðvitað skólakerfið allt eftir.

Herra forseti. Umfjöllunin um þetta mál verður ekki lengri af minni hálfu að þessu sinni. Ég vildi fyrst og fremst lýsa yfir stuðningi við þennan málatilbúnað og vænti þess að hið háa Alþingi sjái senn sóma sinn í að setja peninga í að fylgja þessum málum eftir sem vert væri.