Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:28:50 (1624)

2002-11-19 17:28:50# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það fram að ég fer ekki með skattamál og er þess vegna ekki sá ráðherra sem ber ábyrgð á þungaskattinum. Hv. þm. hlýtur að vita það og muna að það var vegna athugasemda samkeppnisyfirvalda sem þungaskattinum var breytt og afnumið það afsláttarfyrirkomulag sem var í gildi og skipti miklu máli en var sem sagt ekki í samræmi við samkeppnislög. Þess vegna þurfti að fara í breytingar. Hv. þm. og flokksfélagar hans hafa oft haft stór orð uppi um mikilvægi samkeppnisyfirvalda og Samkeppnisstofnunar og allt það, og er ég í sjálfu sér ekki að finna að því, en menn verða að hafa eitthvert samræmi í málflutningi sínum. Hv. þm. spyr: Hvers vegna var ekkert gert fyrr? Byggðaáætlun var samþykkt í vor og strax var sett í gang þessi vinna af hálfu iðnrn. Og eins og ég sagði áðan hefur vinna farið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar undir forustu samgrh. sem tengist flutningskostnaði í landinu í ár, og miklar upplýsingar liggja fyrir. Þó að þetta hefði sjálfsagt mátt gerast löngu fyrr er ég þó ekki búin að sitja mjög lengi í ríkisstjórn, og ég tel að ef við náum að taka á þessu máli í framhaldi af þeirri vinnu sem núna er í gangi getum við bara öll verið nokkuð hamingjusöm með það.