Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 17:52:29 (1635)

2002-11-19 17:52:29# 128. lþ. 32.13 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hér með fyrir framan mig ræðu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Þessi ræða er flutt 17. október sl. Þar segir formaður Samfylkingarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þetta væri hægt að gera á Íslandi með þeim hætti að þungaskattur yrði minni eftir því sem fjær dregur frá höfuðborgarsvæðinu.`` --- Svo mörg voru þau orð.

Nú óska ég eftir því að hv. þm. beiti sér fyrir því í Samfylkingunni að lögð verði fram tillaga á Alþingi um hvernig þetta verði gert til þess að aðrir þingmenn geti tekið afstöðu til þess. Ef Samfylkingin vill ekki gera það eftir þau stóru orð sem þessi hv. þm. hefur hér sagt er ekki nokkur leið að taka mark á honum, ekki nokkur leið.

Hér talar formaður Samfylkingarinnar beinlínis um að þungaskatturinn eigi að vera lægri eftir því sem fjær dregur höfuðborginni. Nú er búið að fallast á að fresta þessari umræðu. Þá hefur þessi hv. þm. tíma til þess að átta sig á því hvað hann vill leggja til grundvallar í því, hvar mörkin skuli vera og þar fram eftir götunum.

Hér talar einnig formaður Samfylkingarinnar um að smella fingri og einnig um að taka verði á þeirri mismunun sem í því felst að virðisaukaskattur skuli vera mismunandi vegna þess að landsbyggðarbúi greiði 8% meira til ríkisins en höfuðborgarbúinn.

Nú vil ég líka óska eftir því að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, skýri hvað fyrir honum vakir. Það er ekki hægt að taka mark á þessu nema það komi fram, það er hægt að æpa hér í stólnum og hægt að ferðast um landið. Samfylkingin vill vera stór flokkur og þess vegna verður formaðurinn að sýna hvað hann meinar, með tölum og með tillöguflutningi á Alþingi en ekki með tómum beljanda.