Eftirlit með iðn- og starfsnámi

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 14:17:41 (1654)

2002-11-20 14:17:41# 128. lþ. 34.3 fundur 335. mál: #A eftirlit með iðn- og starfsnámi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er gott að þessum fyrirspurnum frá hv. þm. Drífu Snædal skuli nú vera svarað. Hæstv. menntmrh. hefur gert okkur grein fyrir því hvernig verksamningar eru gerðir við einkaskóla, um einstaka þætti námsins og hvernig eftirliti menntmrn. er síðan háttað. Það verður að viðurkennast að í spurningunni fólst ekki nein sérstök áhersla á hvers konar einkaskóla væri um að ræða en ég vék að því í ræðu minni að þetta er þekkt fyrirbæri í snyrtináminu þar sem gífurlega mikil aðsókn er en fá pláss fyrir nemendur til að setjast í. Í því sambandi væri auðvitað eftirsóknarvert að fá hæstv. menntmrh. til þess að upplýsa okkur um það hvort í bígerð sé að opna fleiri námsbrautir eða að fleiri skólar fái að opna námsbraut í snyrtifræðum heldur en nú er. Mér hefur borist það til eyrna að Verkmenntaskólinn á Akureyri hafi þegar sótt um heimild til að fá að opna kennslu í snyrtifræðum hjá sér, í öllu falli er vitað af mjög miklum áhuga í því ranni.

Það hlýtur að vera alveg ljóst að nemendur á Íslandi sem sækjast eftir vinsælu námi ættu auðvitað að fá mögulega úrlausn hjá hinu opinbera, það ætti ekki að þvinga fólk í einkaskóla sem taka gífurlega há skólagjöld og gífurlega há efnisgjöld eins og í þessu tilfelli er gert.

Fyrir síðara svar hæstv. ráðherra ber einnig að þakka. Það þarf auðvitað að hafa augun opin fyrir því að nemendur sem fara í vinnustaðanám eigi aðgang að meisturum sem geta með góðu móti tekið þá á samning. Það þýðir illa að koma upp námi í greinum sem gera ekki ráð fyrir því að til séu meistarar í landinu sem séu fúsir til eða hafi möguleika á að taka að sér nema. Hér er því um atriði að ræða sem þarf að hafa vakandi auga með.