Framkvæmd þjóðlendulaganna

Miðvikudaginn 20. nóvember 2002, kl. 15:21:33 (1682)

2002-11-20 15:21:33# 128. lþ. 34.9 fundur 299. mál: #A framkvæmd þjóðlendulaganna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að í umræðum um þessi mál hér fyrir ári og áður en úrskurðir óbyggðanefndar lágu fyrir var einmitt af hálfu hæstv. ráðherra og annarra ráðherra lögð áhersla á að menn skyldu treysta óbyggðanefnd.

Ég vil líka benda á, herra forseti, hver staða óbyggðanefndar er orðin. Hún er ekki aðeins að kveða upp þá úrskurði sem nú er verið að kæra, heldur er henni einnig ætlað að úrskurða um málskostnað gagnaðilans sem er að mínu viti alveg fullkomlega óeðlilegt, enda er ágreiningur um það hver kostnaður gagnaðilans er, þ.e. bænda og sveitarfélaga sem sækja þennan rétt. Þannig fær óbyggðanefnd líka úrskurðarvald í því. Það leiðir til þess að ekki aðeins núna eru málaferli í gangi vegna úrskurðar úrskurðarnefndar eða óbyggðanefndar varðandi landið sjálft, heldur eru einnig komin æ fleiri mál sem eru höfðuð vegna úrskurðar óbyggðanefndar um málskostnað sem er þó lofað að verði tekið þátt í eða greiddur samkvæmt lögunum. Þetta er því að verða ein allsherjarmálssóknarflækja sem getur ekki verið ríkinu til sóma í sjálfu sér að vera upphafsmaður og kyndill að.

Þess vegna leyfi ég mér að ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrh.: Úr því að farið var í gang með að fara með þetta alveg á síðasta dómstig, hvers vegna er þá ekki núna stoppað þannig að menn þurfi ekki að vera að eyða í kostnað bæði fyrir kröfugerðarnefnd og síðan fyrir óbyggðanefnd meðan þessir úrskurðir eru að ganga í gegn svo menn séu ekki stöðugt að efna til málaferla og kostnaðar sem kannski gæti reynst þá óþarft ef þessi prinsippúrskurður fengist? Það fyndist mér a.m.k. vera það lágmark í skynseminni í framkvæmd málsins.

En herra forseti. Ég ítreka það að ég tel að hér sé farið fram af frekar miklu offorsi.