Heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 13:34:19 (1685)

2002-11-26 13:34:19# 128. lþ. 36.91 fundur 257#B heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Heimsþing Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun var haldið í Jóhannesarborg í Suður-Afríku 26. ágúst til 4. september sl. Á þinginu var samþykkt yfirlýsing, svokölluð Jóhannesarborgaryfirlýsing, um aðgerðir þjóða heimsins á næstu árum til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar. Þátttaka Íslands á þinginu var nokkuð góð og verður ekki annað sagt en að virk þátttaka okkar hafi vakið athygli.

Hæstv. forsrh. sótti þingið auk hæstv. umhvrh. og fjögurra hv. þm. Strax og þing kom saman, þ.e. í byrjun október, hóf ég undirbúning að því að fá umræðu um heimsþingið utan dagskrár hér á Alþingi og snerist þá undirbúningur minn um að freista þess að fá lengda umræðu um málið. Þannig leitaði ég stuðnings þeirra þingmanna sem sóttu heimsþingið og um miðjan október lá fyrir stuðningur þeirra og þingflokksformanna Samfylkingarinnar og Sjálfstfl. um að þeir mundu ekki leggjast gegn því að ég óskaði eftir lengdri umræðu um málið. Þegar þetta lá fyrir skrifaði ég hæstv. forsrh. bréf hinn 15. október og óskaði eftir því að hann yrði til andsvara við slíka umræðu. Jafnframt fór ég þess á leit við hann að hann samþykkti að umræðan yrði af lengra taginu. Síðan eru liðnar, herra forseti, sex vikur og enn hef ég ekki fengið svar frá hæstv. forsrh.

Nú hefur það borið við að búið er að dreifa á borð þingmanna skýrslu hæstv. umhvrh. um heimsþingið og um leið og ég gagnrýni hæstv. forsrh. fyrir að hunsa beiðni mína á þann hátt sem hann hefur gert vil ég bjóða hæstv. forseta að ég dragi til baka beiðni mína um umræðu utan dagskrár að því gefnu að skýrsla hæstv. umhvrh. verði tekin til dagskrár hið fyrsta og þá til efnislegrar umræðu hér á þinginu.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þingmenn á að Jóhannesarborgarráðstefnan heyrir undir hæstv. umhvrh.)