Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:35:20 (1722)

2002-11-26 15:35:20# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að hæstv. menntmrh. vill ekki fullyrða of mikið, enda hafa ýmsir brennt sig á því áður að fullyrða meira en hægt var að standa við varðandi opnun Þjóðminjasafnsins. En vegna þeirra varfærnislegu orða sem hæstv. ráðherra hafði um væntanlega opnun Þjóðminjasafnsins og nefnir árið 2004 sem er nú býsna langt í, ég tala nú ekki um ef við lítum á þann tíma sem búinn er að fara í allar þessar framkvæmdir, þá er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi framkvæmda- og fjárhagsáætlanir um þetta verk, þannig að hugsanlega verði hægt að taka þetta upp áður en við afgreiðum fjárlög fyrir árið 2003 svo hægt verði a.m.k. að leggja drög að því að staðið verði við þau varfærnislegu orð hæstv. ráðherra um að Þjóðminjasafnið verði opnað árið 2004.