Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 15:37:34 (1724)

2002-11-26 15:37:34# 128. lþ. 36.3 fundur 382. mál: #A þjóðminjalög# (verkaskipting, minjaverðir o.fl.) frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek að hæstv. ráðherra er mjög varfærnislegur í yfirlýsingum sínum og ég skil það mætavel að af ýmsum ástæðum er eðlilegt að svo sé.

Ég vil aðeins nota seinna andsvar mitt til þess að hvetja hæstv. ráðherra til að nýta aðstöðu sína til að reyna að undirbúa þetta mál sem allra best þannig að möguleiki verði á að fjárln. geti skoðað málin nú fyrir lokagerð fjárlaga, vegna þess að ekki er mikill tími til stefnu ef reyna á að verða við, eigum við að segja þeirri ósk eða von hæstv. ráðherra að safnið geti opnað 2004, því við erum þá auðvitað að tala um að megintíminn sem fer í þá vinnu hlýtur að vera árið 2003. Við þurfum þess vegna að geta markað stefnuna raunverulega við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003.

Ég vil því nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til að hotta vel á sitt fólk þannig að sem allra gleggstar upplýsingar liggi fyrir áður en við afgreiðum fjárlög. Þá á ég ekki síst við að allar fjárhagsáætlanir liggi fyrir og einnig áætlanir um það hvernig menn ætla sér að skipta þeim kostnaði sem hlýst við að láta þennan draum svo margra rætast sem allra fyrst.