Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:54:08 (1745)

2002-11-27 11:54:08# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:54]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárreiðulögin sem Alþingi ber að fara eftir, fjárreiðulögin sem eru samþykkt á Alþingi bera það með sér að viðkomandi einstaklingar bera ábyrgð á því sem er að gerast hjá þeim og þeir eiga að sæta ákveðinni ábyrgð. En ef þeir hlutir eru gerðir svona með aðkomu ríkisstjórnarinnar þá er það að sjálfsögðu ríkisstjórnin sem ber ábyrgð.

Heldur hv. þm. Ásta Möller að hér sé maður sem tali um að víkja eigi skólameistara Menntaskólans í Kópavogi burt? Alls ekki. Það er bara verið að sýna nákvæmlega fram á við hvaða skilyrði sá forstöðumaður þarf að vinna. Þeir sem bera ábyrgðina eru þeir sem ættu að vera hér, hv. þm., við umræðu um fjárlög. Það er ekki einn einasti hæstv. ráðherra sitjandi hér í stól, aðeins einn hæstv. ráðherra í salnum, hæstv. fjmrh., og hann hefur ekki kvatt sér hljóðs um eitt eða neitt þó að hér hafi verið ítrekað spurt nákvæmlega um þau atriði sem hv. þm. Ásta Möller spurði út í, þ.e. hvernig ætti að bregðast við.

Ef hv. þm. hefur kynnt sér sæmilega það nál. sem fyrir liggur þá eru þar einmitt spurningar til hæstv. fjmrh. um til hvaða ráðstafana eigi að grípa. Það er eðlilegt að við bendum á auglýsingastofu ríkisstjórnarinnar um laus störf, Starfatorg, að ef menn ætla að fara í hagræðingar eftir því sem fjárlögin stefna, yrði sennilega þar fjöldi manns á atvinnuskrá.