Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 11:57:32 (1747)

2002-11-27 11:57:32# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki heyrt eina ræðu hér í dag, hvorki í andsvari né í ræðu, að það hafi verið gagnrýnt sem leiðrétt hefur verið í vanda ríkisstofnana. Hins vegar hefur það verið gagnrýnt sem ekki er leiðrétt.

Í nál. 1. minni hluta fjárln. stendur, með leyfi forseta:

,,Tímabært er að fjármálaráðherra leggi spilin á borðið og upplýsi Alþingi um raunverulega fjárhagsstöðu stofnana ríkisins ásamt tillögum að lausn vanda þeirra.``

Það er nákvæmlega, hv. þm., búið að gera grein fyrir því að 20% fjárlagaliða fara umfram 4% sem er viðmiðunin varðandi lögin um fjárreiður ríkisins. Og samkvæmt lögum ber að fara að þessum málum, það ber samkvæmt lögum að ganga í þetta. Þess vegna er sett svona alvarleg gagnrýni fram á framkvæmd fjárlaga vegna þess að verið er að brjóta lög, hv. þm. Ef þingmaðurinn telur að ég sé að fara með rangt mál þá væri gott að hún staðfesti það í ræðu sinni á eftir, ef hv. þm. telur að ég sé að fara með rangt mál um að verið sé að brjóta lög.