Fjárlög 2003

Miðvikudaginn 27. nóvember 2002, kl. 12:00:03 (1748)

2002-11-27 12:00:03# 128. lþ. 37.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 128. lþ.

[12:00]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. við 2. umr. um fjárlög ríkisins fyrir árið 2003. Formaður fjárln., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, gerði að umtalsefni í ræðu sinni áðan stefnu ríkisstjórnarinnar í tekjumálum, með hvaða hætti ríkisstjórnin aflar tekna og hvaða stefnu hún hefur í útgjaldamálum sínum.

Vert er að hafa það í huga að fjárlagaumræðan fer í gegnum þrjár umferðir á þinginu. 1. umr. er í upphafi þings þegar hæstv. fjmrh. mælir fyrir fjárlagafrv. og gerir grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar tekjur og einnig hvað varðar gjöld. Þegar útgjöld fjárlagafrv. hafa verið yfirfarin er endurskoðuð útgáfa þeirra lögð fram við 2. umr. Við 3. umr. kemur endurskoðuð tekjuáætlun frá ríkisstjórn sem fer til meðhöndlunar í fjárln. og sömuleiðis í efh.- og viðskn. Þriðja umræðan er því að meginstofni um efnahagsmálin, tekjuáætlunina, efnahagshorfur og forsendur fyrir efnahagsstjórninni árið á eftir. Við 2. umr. ræðum við því fyrst og fremst gjöldin. Við komumst samt ekki hjá því að tala aðeins um stefnu ríkisstjórnarinnar í tekna- og gjaldamálum og hversu frábrugðin sú stefna er þeirri sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur í tekjuöflun ríkisins og líka varðandi það hvernig útgjöldum er ráðstafað.

Í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og brtt. meiri hluta fjárln. kemur skýrt fram stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokkum sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Fram kemur hvernig ríkisstjórnin ætlar að afla tekna og tillögur hennar um það hvernig þeim skuli ráðstafað á einstaka málaflokka og verkefni. Þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað í heild sinni má greina þann mun sem er á áherslum núverandi meiri hluta annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hins vegar.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattstefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti. Til að ná slíku fram hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagt áherslu á fjögur eftirfarandi atriði:

1. Að skattleysismörk fylgi launaþróun þannig að lágtekjufólki og lífeyrisþegum verði hlíft við óhóflegri skattheimtu.

2. Teknir verði upp stighækkandi skattar af launatekjum án þess að það feli í sér að heildarskattbyrði launafólks aukist.

3. Að fjármagnstekjur, þar með taldar arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé verði skattlagðar til jafns við aðrar tekjur.

4. Að skattlagning á hreinum hagnaði fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna.

Í skattstefnu ríkisstjórnarinnar er allt aðrar áherslur að finna. Þær birtast á skýran hátt í skattbreytingum síðasta árs þar sem skattar á fyrirtæki og hátekjufólk voru lækkaðir en tekjuskattur á almenna launþega ekki. Í þessu sambandi má enn fremur nefna að í tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs yrðu 257,9 milljarðar kr. en nú er talið að heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2002 verði 263,6 milljarðar kr., þ.e. 5,7 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hlutur einstaklinga í þessari tekjuaukningu ríkisins er 4 milljarðar kr., rúm 70% af heildarhækkun tekna.

Skattbreytingar ríkisstjórnarinnar síðasta vetur höfðu það sérstaklega að markmiði að ívilna fjármagnseigendum, hátekjufólki og stórfyrirtækjum. Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% í 18%. Árið 2000 var tekjuskattur á hagnað fyrirtækja 9.679 millj. kr. eða 4,8% af heildarskatttekjum ríkissjóðs. Árið 2003 er hann áætlaður einungis 5.250 millj. kr. eða um 2% af heildarskatttekjum. Hlutur þessa skatta á hagnað fyrirtækja lækkar um 3 milljarða kr. milli ára vegna skattbreytinga sem meiri hlutinn beitti sér fyrir á Alþingi. Skattur á arðgreiðslur og fjármagnstekjur er einungis 10% og nema tekjur ríkissjóðs af honum um 5 milljörðum kr. en hann hefur staðið í stað sl. þrjú ár. Enn fremur var sérstakur hátekjuskattur einstaklinga lækkaður úr 7% í 5%.

Virðulegi forseti. Hér þarf að snúa algjörlega við blaði og koma á gerbreyttri skattstefnu sem hafi að markmiði að jafna aðstæður og lífskjör í landinu. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna eru fastar í fátæktargildru sem aðallega orsakast af lágum dagvinnulaunum, veikleikum og götum í velferðarkerfinu og ranglátri skattstefnu. Slíkt á ekki að líðast í þjóðfélagi sem kennir sig við velferð. Ljóst er að til að koma á umbótum í þessu efni þarf nýja ríkisstjórn með aðrar áherslur en sú sem nú situr. Það þarf ríkisstjórn sem sterkri aðild Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Ef litið er á gjaldahliðina, virðulegi forseti, taka heilbrigðismálin þar mest rúm. Fjárhagsvandi heilbrigðiskerfisins er mikill og vaxandi þrátt fyrir þá staðreynd að reynt hafi verið að koma jafnvægi á rekstur heilbrigðisstofnana fyrir nokkrum árum. Í lok ársins 2001 hafði rekstur 22 heilbrigðisstofnana farið umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 1,6 milljarðar kr. Ekkert hefur komið fram hjá ríkisstjórninni um hvernig fjárhagsvandi spítalanna, sem stöðugt eykst, verði kerfisbundið leystur.

Það er ljóst að vandi heilbrigðisþjónustunnar er mikill og að endurskoða þarf heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Það hefur komið fram að komum til sérfræðilækna sem fá greitt í gegnum Tryggingastofnun ríkisins fjölgar mikið, t.d. komu 291 þúsund sjúklingar til 342 sérfræðilækna í tæplega 460 þúsund skipti á árinu 2001. Lög um heilbrigðisþjónustu endurspegla ekki þessa miklu starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðilækna heldur er þar kveðið á um að fyrsti viðkomustaður í heilbrigðisþjónustunni skuli vera á heilsugæslustöðvunum, en hlutur þeirra fer að sama skapi minnkandi.

Það er ljóst að verulega sér á íslenska velferðarkerfinu eftir nær 12 ára ríkisstjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan með Framsóknarflokknum. Brýnt er að hverfa af braut sífelldra kostnaðarhækkana sem bitna á almenningi og felast í komugjöldum, háu lyfjaverði og sjúklingasköttum. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð varar enn fremur við allri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og telur að leggja beri höfuðáherslu á öfluga undirstöðuþjónustu, þ.e. heilsugæslu og forvarnir og betri aðbúnað langveikra og aldraðra. Forðast ber að heilbrigðisþjónustan þróist í átt að tvöföldu kerfi með tilheyrandi mismunun og óheyrilegum kostnaði fyrir einstaklinga og þjóðarbúið.

Virðulegi forseti. Sé litið á tillögur meiri hlutans við fjárlögin við 2. umr. sést að þar er um umtalsverða hækkun að ræða. Sú hækkun var hins vegar fyrirsjáanleg. Í heilbrigðiskerfið er innbyggður verulegur fjárskortur að óbreyttu. Það sem er hins vegar alvarlegra í þeirri ráðstöfun sem meiri hlutinn leggur til hér er að hann mismunar bæði heilsugæslunni og sjúkrahúsunum í landinu.

Öllum er ljóst að leiðrétta þurfti rekstrargrunn Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Sömuleiðis hefði þurft að bæta enn úr rekstrarvanda Tryggingastofnunar ríkisins sem áfram situr uppi með verulegan rekstrarvanda og getur ekki endurnýjað tækjakost sinn og þannig staðið undir verkefnum sínum eins og þörf er á. Hitt er alvarlegra að sjúkrahúsin úti á landi, heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, fá ekki tilsvarandi leiðréttingu á rekstrargrunni sínum eins og t.d. er gert á rekstrargrunni Landspítala -- háskólasjúkrahúss, þó að það sé brýnt. Þetta eru mjög alvarleg skilaboð inn í heilbrigðiskerfið. Þetta eru skilaboð um það að við ætlum okkur í auknum mæli að miðstýra allri sjúkrahúss- og heilbrigðisþjónustu héðan frá höfuðborgarsvæðinu. Það eru alvarleg boð út í samfélagið. Ég vek athygli virðulegs varaformanns fjárln. sem hér gekk í sal, og fulltrúa Sjálfstfl. í fjármálastjórn ríkisins, á því. Það er ánægjulegt að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson skuli loksins hafa tíma til þess að vera við fjárlagaumræðuna.

Þessi mismunun sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu er alvarleg. Á henni verður að taka. Ég á sæti í hv. fjárln. og mun beita mér fyrir því að þessi mál verði tekin aftur upp í nefndinni ef meiri hlutinn hefur ekki frumkvæði að því.

Virðulegi forseti. Annar mikilvægur málaflokkur er menntamálin. Fátt er afdrifaríkara fyrir okkur, aukinn hagvöxt, vöxt og viðgang í almennum lífskjörum, og gott framboð og menntun í landinu. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki tekið á vanda framhaldsskólanna sem var þegar í árslok 2001 orðinn mikill, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir í umræðunum í gær og í dag. Það er ekki tekið á þessum rekstrarvanda. Hins vegar höfum við skýrslur sem sýna að í framhaldsskólakerfinu er greinilega pottur brotinn. Sú staðreynd að innan við helmingur af því unga fólki sem hefur framhaldsskólanám lýkur ekki framhaldsskólanum, fellur brott á tímabilinu, segir okkur að þarna er eitthvað verulega alvarlegt að. Það hefur líka komið fram að þeir landshlutar sem hafa ekki framhaldsskóla í heimabyggð sinni eru verr settir gagnvart því að unga fólkið þeirra ljúki framhaldsskólanámi. Á þessu verður að taka.

Framtíð okkar og samkeppnisstaða atvinnulífsins byggist á öflugri menntun. Þegar við sjáum slíkar brotalamir sem hér eru á ferð varðandi framhaldsskólann verðum við að taka á honum. Það er því dapurlegt að skilaboð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárln. skuli vera að ástæða sé til þess að láta framhaldsskólana bera skuldirnar árum saman án þess að tekið sé á þeim vanda og hann leystur. Áfram er rekstrargrunnur þeirra skilinn eftir í óvissu. Þetta bitnar jafnframt harðast á skólum þar sem verknám, starfsnám og tækninám eru meginhluti skólastarfsins og sömuleiðis á þeim skólum sem reka heimavistir. Þeir skólar, sérstaklega úti á landi, eru viðkvæmir fyrir því að eðlilegri fjárþörf þeirra til reksturs er ekki mætt.

Skólastjórnendur hafa gagnrýnt það reiknilíkan sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til skólanna. Gagnrýnin hefur beinst að því að reiknilíkanið sé ekki nógu vel aðlagað mismunandi starfsemi þeirra. Reiknilíkanið hefur fyrst og fremst verið til þess að skipta peningum en tekur ekki tillit til þess starfs sem þar er unnið. Framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa kvartað undan því að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til aukins kostnaðar vegna fjarlægðar skólanna frá höfuðborginni. Það er nú svo að þjónustuna verða margir hverjir að sækja þangað. Þá hafa verkmenntaskólar gagnrýnt að búnaður tölvu- og verknámsdeilda sé stórlega vanmetinn.

Félag framhaldsskólakennara hefur einnig í ályktun gagnrýnt fjárlagafrumvarpið og fjárveitingar til framhaldsskólans. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Fjárveitingum til framhaldsskólanna samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2003 er dreift eftir nýju reiknilíkani þannig að til þess að bæta fjárveitingar til einstakra framhaldsskóla þar sem þess er talin þörf er skorið fé af fjárveitingum til annarra framhaldsskóla sem þó eru alls ekki aflögufærir. Meginvandinn er því sá að ekki er aukið við heildarfjárveitingu til framhaldsskólastigsins sem nemur kostnaði af breyttu reiknilíkani né heldur er aukið við fé til að styrkja starfsemi framhaldsskólanna almennt og til að auka þjónustu þeirra við nemendur.`` --- Ljóst má vera að það leysir ekki málið að færa vanda einstakra skóla yfir á hina.

[12:15]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á að auknum fjármunum verði varið til menntamála. Með því að fjárfesta í menntun erum við að fjárfesta í framtíðinni. Sá sofandaháttur sem ríkisstjórnin hefur viðhaft í málefnum framhaldsskólanna er ekki til eftirbreytni. Ekki er tekið nógu mikið tillit til framhaldsskóla á landsbyggðinni né heldur skóla sem sinna verknámi en það nám er mun kostnaðarsamara en venjulegt bóknám. Þróun menntamála undanfarin ár hefur orðið til að stefna æ fleiri nemendum til bóknáms þegar komið er á framhaldsskólastig, jafnvel svo að ástæða er til að óttast um framtíð verkmenntunar í landinu. Sem dæmi má nefna að í Iðnskólanum í Reykjavík, stærsta iðnskóla landsins, hefur fjölgun nemenda í skólanum í heild fyrst og fremst orðið á bóknámsbrautum, svo sem í almennu námi, fornámi og á tölvufræðibraut. Á þeirri braut eru nemendur þrisvar sinnum fleiri nú en þeir voru í upphafi tíunda áratugarins. Nemendum hefur hins vegar fækkað á nær öllum iðnnámsbrautum. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar hugsað er til iðn- og verkmenntunar í landinu. Mikilvægt er að grípa í taumana og styrkja sérstaklega verknáms- og iðnnámsbrautir og gera slíkar námsbrautir fýsilegar fyrir góða námsmenn.

Herra forseti. Ekki verður undan því vikist að minnast á rekstrarvanda Ríkisútvarpsins en Ríkisútvarpið hefur átt við mikinn rekstrarvanda að etja á undanförnum árum og hefur verið rekið með tapi allan síðasta áratug að undanskildu einu ári. Það hefur því gengið verulega á eigið fé stofnunarinnar. Verði ekki myndarlega við brugðist er þess skammt að bíða að Ríkisútvarpið verði orðið eignalaust með öllu.

Ríkisútvarpið hefur orðið að bregðast við fjárhagsvandanum með samdrætti og sparnaði á flestum sviðum og afleiðingarnar eru óhjákvæmilega minni þjónusta. Í greinargerð stofnunarinnar með fjárlagatillögum hennar fyrir árið 2003 segir m.a, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hefur verið dregið úr rekstrarkostnaði og þjónustu Ríkisútvarpsins. Dagskrárgerð og fréttaþjónusta hefur minnkað. Á safnadeild hefur skráning uppsafnaðs dagskrárefnis frá fyrri tíð vart undan. Endurvinnslu á efni sem liggur undir skemmdum, svo sem af eldri hljómplötum, hljóðböndum og kvikmyndum, hefur að mestu verið hætt. Viðhald á húsnæði er í lágmarki, áætlun um endurnýjun á sendum í dreifikerfi hefur nú verið frestað um tvö ár. Forgangsverkefni í fjárfestingum er endurnýjun á stjórn- og tæknibúnaði útvarpsins og er sú vinna hafin en áfangar augljóslega ekki nógu stórir.``

Það er alveg ljóst, herra forseti, að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins hafa komið skilaboðum sínum til fjárln. og Alþingis. Hins vegar virðist það vera stefna meiri hlutans að skella skollaeyrum við nauðsynlegum kröfum og óskum Ríkisútvarpsins, miðils sem öll þjóðin vill að standi sem best undir nafni.

Byggðamálin eru einnig þáttur sem skiptir miklu máli. Því miður er hann þó heldur rýr í því frv. sem hér er lagt fram. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur í stefnu sinni lagt áherslu á að styrkja stöðu landsbyggðarinnar með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þann fjárhagslega mismun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum eru undirstaða lífvænlegrar byggðar. Slíku verður ekki náð fram með einkavæðingu og einkarekstri í undirstöðuþáttum velferðarkerfisins þar sem afleiðingarnar bitna harðast á dreifðum byggðum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gagnrýnir harðlega að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki gert ráð fyrir stofnun framhaldsskóla á norðanverðu Snæfellsnesi. Menntamálaráðherra sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi að síðastliðið vor hefðu legið fyrir allar upplýsingar og tillögur um stofnun framhaldsskóla Snæfellinga. Fram kom í máli ráðherrans að heimamenn hefðu undirbúið málið vel og það væri komið á ákvörðunarstig.

Virðulegi forseti. Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi er eitt brýnasta hagsmunamál Snæfellinga. Þessu nefndaráliti fylgir einmitt greinargerð frá formanni undirbúningsnefndar um framhaldsskóla Snæfellinga á Snæfellsnesi, bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar, Björgu Ágústsdóttur, þar sem staða þessara mála er skýrð og rakin af hálfu heimamanna.

Skólamál eru einn mikilvægasti þátturinn í lífi fólks hvar sem það býr og jafnt aðgengi til náms er hluti af lífskjörum hvers og eins og samkeppnishæfni, bæði búsetu og atvinnulífs, hvílir á menntun ungs fólks og möguleikum til símenntunar og endurmenntunar í heimabyggð.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ávallt lagt mikla áherslu á ferðaþjónustu og umhverfismál. Ferðaþjónusta og náttúruvernd geta farið vel saman, enda náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist fyrst og fremst á. Mikilvægt er að efla þessa ungu atvinnugrein. Það verður m.a. gert með því að efla náttúruvernd og tryggja sem besta umgengni um þessa dýrmætu auðlind sem er ein undirstaða blómlegrar ferðaþjónustu. Gera þarf sérstakt átak í atvinnuuppbyggingu í tengslum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði. Landvörðum og leiðsögumönnum þarf að fjölga og styrkja þarf stöðu þeirra. Nauðsynlegt er að efla menntun í ferðaþjónustu og auka fjölbreytni hennar. Koma þarf á fót tilraunaverkefnum um sjálfbær samfélög undir merkjum vistmenningar og styrkja slík samfélög sem þegar eru til. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gagnrýnir það metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu og telur að leggja ætti meiri fjármuni til slíkra verkefna.

Ferðaþjónustan er ung atvinnugrein með afar lítið eigið fé, sérstaklega á landsbyggðinni. Markaðstarf greinarinnar er á frumstigi og þar sárvantar svokallað þolinmótt áhættufé til langs tíma með lágum vöxtum. Það eru fyrst og fremst kappsfullir og hugmyndaríkir einstaklingar sem bera uppi þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu, sérstaklega í fjölbreyttum afþreyingariðnaði. Lánveitendur krefjast veðs í fasteignum en höfuðstóll ferðaþjónustunnar er fyrst og fremst fólginn í viðskiptavild, ímynd og krafti einstaklinganna og er þess vegna ekki veðhæfur. Þarna getur ríkisvaldið komið á móti með öfluga stoðþjónustu, svo sem aukinn stuðning við rannsóknir og markaðsstarf og rekstur öflugra upplýsingamiðstöðva ferðamála um allt land.

Virðulegi forseti. Ljóst er að í ferðaþjónustu eru fjölmörg vannýtt sóknarfæri sem skilað gætu verulegum arði í þjóðarbúið. Slík sóknarfæri er víða að finna, bæði í nýsköpun í atvinnurekstri og innan hefðbundinna atvinnugreina. Alþjóðlegar kannanir og reynsla nágrannaþjóða sýna að í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sé að finna mikilvæga vaxtarsprota og þar verði hlutfallslega til mun fleiri störf en vænta megi í stóriðju og öðrum stórfyrirtækjum. Skapa þarf hagstæð skilyrði til nýsköpunar í atvinnumálum til að koma á fót og starfrækja ný fyrirtæki og tryggja þeim greiðan aðgang að fjármagni. Ekki er síst mikilvægt að huga að starfsskilyrðum atvinnulífs og nýsköpun í atvinnumálum á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur til að stærri hluta af fjárútlátum ríkisins verði varið til menntunar og rannsókna jafnframt því sem stefna í atvinnumálum taki fullt mið af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna.

Virðulegi forseti. Það eru mörg verkefnin að fást við og sem skipta máli. Ég vil gera að umtalsefni Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Sementsverksmiðjan á Akranesi á nú í miklum rekstrarvanda svo að tvísýnt er um framtíðarrekstur hennar. Ástæða þess er m.a. sú að hafinn er innflutningur frá Danmörku á sementi sem selt er hér á mun lægra verði en Sementsverksmiðjan getur keppt við. Því hefur verið haldið fram að hér sé um undirboð að ræða frá hinum erlenda innflytjanda og markmiðið sé að knésetja Sementsverksmiðjuna, ná undir sig markaðnum og geta síðan ráðið sementsverðinu. Sementsverksmiðjan hf. er í eigu ríkisins. Mikilvægt er að staðið sé á bak við verksmiðjuna meðan þetta stríð stendur yfir og samkeppnismál skýrast. Því er flutt tillaga um heimild til handa ríkissjóði að auka hlutafé Sementsverksmiðjunnar.

Virðulegi forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu við þessa umræðu flytja nokkrar breytingartillögur sem undirstrika áherslur flokksins þar sem sérstakra leiðréttinga er þörf. Þær eru einkum á sviði byggðamála, velferðar-, heilbrigðis-, mennta-, menningar- og umhverfismála. Þingmennirnir munu gera grein fyrir tillögunum hér við 2. umr. fjárlaga.

Enn fremur vek ég athygli á þeim fjölmörgu verkefnum sem enn er ólokið í vinnu fjárlaganefndar, svo sem varðandi framlög vegna nýgerðs samnings ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara og umfjöllun um ýmsar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús, sérstaklega á landsbyggðinni, sem skortir tilfinnanlega rekstrafé. Framlög til byggðaaðgerða eru mun rýrari en nýsamþykkt byggðaáætlun gerir ráð fyrir. Þá er sérstök ástæða til að vekja athygli á því að hvorki er í gildi sundurliðuð vegáætlun né flugmálaáætlun. Sú sundurliðun á viðfangsefni vegáætlunar sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu er marklítil enda er boðað að hún muni breytast í allmörgum liðum. Beðið er samræmdrar samgönguáætlunar sem átti að liggja fyrir á haustdögum en hefur ekki enn verið lögð fram. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að ekki er hægt að afgreiða fjárlagafrumvarpið endanlega fyrr en samgönguáætlun liggur fyrir og þar með einnig skipting og ráðstöfun fjár til samgöngumála.

Ljóst er að ekki er hægt að fjalla á tæmandi hátt um gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Það bíður 3. umr., svo og tekjuhlið frumvarpsins. Einstakar breytingartillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við tekjuhlið frv. til fjárlaga munu því einnig bíða 3. umr.

Virðulegi forseti. Með þessu nefndaráliti eru nokkur fylgiskjöl sem ég vil gera örstutta grein fyrir.

Ég hef áður nefnt ályktanir Félags framhaldsskólakennara um nauðsyn þess að rétta af fjárhag framhaldsskólanna og leiðrétta reiknilíkan sem deilir fénu út til framhaldsskólanna á ranglátan hátt, tekur ekki tillit til sérþarfa einstakra skóla og þeirra verkefna sem þeir standa fyrir.

Hér er einnig ályktun frá stjórn Kennarasambands Íslands um fjárveitingar til framhaldsskólanna samkvæmt fjárlagafrv. 2003 sem víkur einnig að sömu atriðum, þ.e. að ekki skuli tekið á fjárhags- og rekstrarvanda framhaldsskólanna og tekið mið af þeim áherslum sem hver og einn skóli hefur í störfum sínum.

Hér er einnig fylgiskjal sem ber heitið Staða framhaldsmenntunar á Vesturlandi, erindi sem Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, formaður undirbúningsnefndar um framhaldsskóla Snæfellinga, flutti. Þar rekur hún ítarlega rök þeirra og forsendur fyrir því að stofnaður verði framhaldsskóli á Snæfellsnesi.

Hér er og ályktun bæjarráðs Akraness þar sem bæjarráðið lýsir áhyggjum sínum yfir stöðu Sementsverksmiðjunnar, rekstrarvanda hennar og samkeppnisstöðu gagnvart innflutningi á sementi þar sem jafnframt er talið að um undirboð sé að ræða. Bæjarstjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þessari stöðu og þeirri ályktun lýkur svo, með leyfi forseta:

,,Skorar bæjarráð á þessa aðila [þ.e. á ríkisvaldið og Alþingi] að grípa nú þegar til nauðsynlegra aðgerða og gera hinum danska sementsframleiðanda ljóst að tilraunum hans til yfirtöku á sementsmarkaðnum á Íslandi verði mætt af fullri hörku á meðan hann stundar óeðlilegt undirboð.``

[12:30]

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan þá munu einstakir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mæla fyrir einstökum brtt. Ég mun þó mæla fyrir brtt. sem lúta í fyrsta lagi að Landgræðslu ríkisins hvað varðar fyrirhleðslur. Á fjárlagalið sem kallast Fyrirhleðslur er fjármagn veitt til þess að verjast landbroti vegna vatnavaxta og vatnságangs frá ám og fljótum. Nú hefur á þessu ári verið óvenju mikið um landbrot af þessum sökum. Landgræðsla ríkisins sem fer með þennan málaflokk hefur því óskað mjög eindregið eftir því að þessi liður á fjárlögum verði hækkaður um 15 millj. kr. til þess að hægt sé að mæta því brýnasta sem hefur komið upp, sérstaklega á Suður- og Suðausturlandi en einnig líka á Norðurlandi. Það er mjög brýnt að þessi fjárveiting fáist, þ.e. 15 millj. kr. hækkun á þessum lið, til þess að hægt sé að verja mikilvæg verðmæti og verðmætt land landbroti og einnig mannvirki sem eru þar í stórhættu.

Ég vil vitna aðeins í röksemdir landgræðslustjóra, með leyfi forseta:

,,Hin mikla úrkoma í fyrri hluta október leiddi til óvenju mikilla flóða í nær öllum vatnaföllum frá Rangárvallasýslu og austur í Lón. Sem dæmi má nefna að vatnsmagnið í Skaftá varð meira en í Skaftárhlaupinu í júlí sl. Afleiðingar þessara flóða voru m.a. miklar skemmdir á fyrirhleðslugörðum og mannvirkjum til varnar landbroti ásamt gróðurskemmdum. Hiklaust má líkja þessum atburðum við náttúruhamfarir.

Mestu skemmdirnar urðu við Svaðbælisá, Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum, við Skaftá, Steinavöð, Kotá, Kolgrímu, Hólmsá og Hofsá í Álftafirði.``

Einnig eru taldir upp fleiri staðir eins og Héraðsvötn í Skagafirði og Jökulsá í Lóni.

Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á þessa brtt. hér, þ.e. að Landgræðsla ríkisins fái aukna fjárveitingu upp á 15 millj. kr. til þess að bregðast þarna við afar brýnum og óvæntum viðfangsefnum, að verjast landbroti.

Virðulegi forseti. Í beinu framhaldi geri ég hér grein fyrir því að leggja ber áherslu á ferðaþjónustu í landinu og að ríkisvaldið getur komið þar að málum til þess að styrkja og efla ferðaþjónustuna með almennri stoð- og grunnþjónustu, t.d. með rekstri á upplýsingamiðstöðvum ferðamála vítt og breitt um landið. Þær upplýsingamiðstöðvar sem hefur verið komið á fót, þó af vanefnum sé, hafa þegar skilað miklum árangri en mikilvægt er að þessar upplýsingamiðstöðvar geti starfað helst allt árið með föstu starfsfólki þannig að þar sé komið upp bæði góðri þekkingu og reynslu í slíku starfi. Því er hér lagt til að fjárveitingar til reksturs upplýsingamiðstöðva á landsbyggðinni verði auknar sérstaklega um 30 millj. kr. Það er svo sem ekki ofrausn. En þó þetta sé ekki hærri upphæð þá mundi hún geta verið til mikillar styrktar fyrir það þýðingarmikla starf að styrkja ferðaþjónustu í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið að mæla fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. Ég mun síðar í dag einnig mæla fyrir tillögu sem kveður á um stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi, þ.e. byrjunarfjárveitingu upp á 80 millj. kr. Hún er byggð á erindi sem sveitarstjórnir á Snæfellsnesi hafa sameinast um og er unnið á grundvelli vinnu sem þar hefur verið lögð fram í samráði og samvinnu við menntmrn. Til þess að unnt sé að hefja byrjunar- og undirbúningsvinnu, taka ákvörðun um skólann og hefja undirbúningsvinnu þannig að nám geti hafist þar haustið 2003 hafa þessir aðilar lagt fram beiðni um 80 millj. kr. Það er eitt hið mikilvægasta mál fyrir Snæfellinga að fá þennan framhaldsskóla sem þeir hafa sameinast um að óska eftir.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.