Úrbætur í jafnréttismálum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:42:43 (1812)

2002-11-28 10:42:43# 128. lþ. 38.4 fundur 129. mál: #A úrbætur í jafnréttismálum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrr á þessu ári skilaði eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um réttindi kvenna, skýrslu sem byggði á upplýsingum frá 1997 um ýmislegt varðandi stöðu kvenna á Íslandi. Þessi sérfræðinganefnd Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna á að fjalla um leiðir til að afnema hvers konar mismunun gegn konum. Í niðurstöðum skýrslunnar þar sem fjallað var um Ísland er æðimargt sem nefndin telur gagnrýnivert hér á landi. Hún talar m.a. um að vaxandi áhyggjuefni sé sá fjöldi erlendra kvenna sem komi ólöglega til Íslands og telur að það tengist vændi sem hugsanlega geti tengst nektardansstöðum, þ.e. svonefndum súlustöðum.

Eftirlitsnefndin gerði ýmsar aðrar athugasemdir eins og þá að óþolandi væri að á Íslandi skuli vera við lýði jafnmikill kynbundinn launamunur og raun ber vitni. Hún gerði einnig athugasemdir við að dómar í mjög mörgum kynferðisafbrotamálum væru óeðlilega vægir. Þá gagnrýndi þessi eftirlitsnefnd að niðurstöður kærunefndar jafnréttismála væru ekki bindandi, m.a. ekki þegar stjórnvöld sjálf ættu í hlut.

Valgerður Bjarnadóttir forstöðumaður Jafnréttisstofu hefur tekið undir allar þær ábendingar sem komu fram í þessari skýrslu og að úrbóta sé þörf í öllum þeim atriðum sem lúta að stöðu okkar varðandi jafnréttismálin. Hún hefur m.a. bent á í fjölmiðlum að það þyrfti að byggja upp svokallaða jafnréttisumbótaskrifstofu eins og er í nágrannalöndum okkar því að það sé mjög flókið fyrir Jafnréttisstofu að fylgja eftir álitum þegar kærunefnd hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli, og það sé sérstaklega erfitt hvað varðar íslensk stjórnvöld.

Nú er þessi niðurstaða byggð á gögnum frá 1997 eins og ég sagði áðan. Engu að síður virðist lítið hafa þokast í átt til betri vegar í öllum þeim atriðum sem koma fram í skýrslunni. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert til að framfylgja niðurstöðum um réttindi kvenna hér á landi sem fram komu í skýrslu sérfræðinganefndar Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum.