Einelti á vinnustað

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 10:58:43 (1817)

2002-11-28 10:58:43# 128. lþ. 38.5 fundur 139. mál: #A einelti á vinnustað# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[10:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins hefur gert athuganir á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna í nokkrum starfsgreinum. Vorið 2002 var lagður spurningalisti fyrir starfsmenn í öllum útibúum banka og sparisjóða á landinu þar sem spurt var sérstaklega um einelti á vinnustað. Í ljós kom að 15% starfsmanna höfðu orðið fyrir áreiti af ýmsu tagi í tengslum við starfið. 8% starfsmanna höfðu orðið fyrir einelti, 5% fyrir hótunum, 2% fyrir kynferðislegri áreitni og um 0,5% fyrir líkamlegu ofbeldi.

Í nóvember 2000 var spurningalisti lagður fyrir starfsfólk á öldrunarstofnunum. Það var ekki sérstaklega spurt um einelti, heldur hvort starfsmenn hefðu orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða hótunum í vinnunni. Um 12% starfsmanna svöruðu því játandi. Í þessari rannsókn kom einnig fram að einvörðungu 5% starfsmanna þekktu til skriflegra leiðbeininga á þessu sviði.

Sambærileg spurning var lögð fyrir starfsfólk í leikskólum í Reykjavík í maí árið 2000. Var þá spurt um áreitni, árásir og hótanir. Um 14% starfsfólksins töldu sig hafa orðið fyrir slíku áreiti í vinnunni. Í öllum þessum tilfellum kom í ljós að eineltið eða áreitnin hafði í för með sér margvísleg neikvæð áhrif á líðan þessara starfsmanna, t.d. voru þeir líklegri en aðrir starfsmenn til að finna til líkamlegra óþæginda, t.d. verkja í mjóbaki, herðum og öxlum auk þess sem þeir voru óánægðari í starfi og upplifðu minni glaðværð og samstöðu í starfshópnum. Þeir voru óánægðir með samskipti við samstarfsfólk og yfirmenn. Sem fyrstu viðbrögð við þessum niðurstöðum hefur Vinnueftirlitið gefið út upplýsingarit um einelti á vinnustöðum og það má t.d. finna á heimasíðu þess.

Að því er varðar seinni spurningu hv. þm. vil ég geta þess að í endurskoðaðri gerð félagsmálasáttmála Evrópu sem samþykktur var árið 1996 var tekið upp ákvæði um skyldu aðildarríkja sáttmálans til að fyrirbyggja neikvæðar og móðgandi athafnir sem beinast að einstökum starfsmönnum á vinnustað. Í félmrn. fer fram athugun á fullgildingu þessa ákvæðis sem og öðrum nýmælum sem er að finna í þessari endurskoðuðu gerð sáttmálans. Það má enn fremur geta þess að á allra síðustu árum hafa ýmis ríki sett lög til að tryggja rétt þeirra sem verða fyrir einelti á vinnustað. Í þeim hópi eru m.a. Finnar og Svíar.

Eins og þingheimi er kunnugt hefur á síðustu tveimur þingum verið lagt fram frv. um breytingar á lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum sem ekki hefur náð fram að ganga. Ég mun endurflytja þetta frv. og í þeirri endurskoðuðu gerð eru ákvæði um einelti á vinnustað.

Ég vil líka fara viðurkenningarorðum um frábært starf Stefáns Karls Stefánssonar leikara sem hefur haft frumkvæði að herferð gegn einelti. Við í félmrn. fögnum því mjög og viljum styrkja hann í því starfi. Ég vil líka geta þess að norræni Lýðheilsuháskólinn í Gautaborg veitti sl. sumar viðurkenningu sænskum prófessor sem vinnur í Bergen og hefur gert rannsóknir á einelti og sett upp sérstakt plan sem þykir hafa gefist framúrskarandi vel. Ég tel ástæðu fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur mjög vel starf þessa merka prófessors og reyna e.t.v. að útfæra það hér heima.