Atvinnuleysisbætur

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:15:09 (1823)

2002-11-28 11:15:09# 128. lþ. 38.6 fundur 231. mál: #A atvinnuleysisbætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:15]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Eftir svörum ráðherra að dæma hafa atvinnulausir verið hlunnfarnir um 15 þús. kr. á mánuði, eða um 180 þús. kr. á ári sé gengið út frá þeim viðmiðunum sem voru í gildi á árinu 1996. Það liggur líka fyrir að hæstv. ráðherra hefur enga skoðun á því hvort hætta eigi að skattleggja lágtekjuhópa. Ég er að spyrja um skoðun hans á því. Ég veit að málið er í höndum fjmrh. mest en hæstv. félmrh. getur haft skoðun á því og ég er að spyrja hann um hana.

Það eina sem hæstv. ráðherra hefur að segja við atvinnulausa er að hann muni hugsanlega beita sér fyrir hækkun á bótum til þeirra sem nemur meðaltalslaunahækkun nú um áramótin.

Ég spurði um launavísitöluna, hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn að beita sér í því. Hann vill ekkert segja um það. Hæstv. ráðherra kemst ekki hjá því að svara því hér í ræðustól hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að atvinnulausir fái hækkun til samræmis við það samkomulag sem gert var við aldraða, þ.e. um 5 þús. kr. hækkun um næstu áramót. Það er auðvitað ekki forsvaranlegt af þessari ríkisstjórn að skilja atvinnulausa algerlega eftir úti í kuldanum nú þegar lítils háttar hækkun hefur orðið til lífeyrisþega. Við sjáum fram á aukið atvinnuleysi.

Tæplega fimm þúsund manns eru atvinnulausar. Atvinnuleysi hefur aukist hér á höfuðborgarsvæðinu, nærri tvöfaldast. Mest hefur fjölgað af ungu fólki í þeim hópi, þ.e. á aldrinum 25--30 ára. Hæstv. ráðherra hefur lítið að segja við þetta atvinnulausa fólk sem bíður eftir að fá kjör sín bætt. Við sjáum að biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd eru að lengjast. 150 manns biðu í biðröð um daginn eftir því að fá mat hjá mæðrastyrksnefnd til að geta fætt fjölskylduna. Við sjáum að hjá sveitarfélögunum hefur kostnaður vegna þessa aukist um 40% á nokkrum mánuðum. Sveitarfélögin eru þannig að greiða fyrir ríkisvaldið framfærslu til atvinnulausra og atvinnulausir eiga heimtingu á að hæstv. ráðherra tali skýrar til þeirra en hann hefur gert úr ræðustól í dag.