Húsnæðissamvinnufélög

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:40:25 (1888)

2002-11-28 15:40:25# 128. lþ. 39.7 fundur 396. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af nefnd sem ég skipaði 3. maí 2001. Verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi var að vinna að heildarendurskoðun laga um húsnæðissamvinnufélög. Í nefndina voru skipaðir Einar Jónsson, lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, Gunnar Jónatansson, framkvæmdastjóri Búseta, Sævar Sigurgeirsson endurskoðandi, sem jafnframt er stjórnarmaður hjá Búmönnum, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögfræðingur í félmrn., og Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Fyrstu lög um húsnæðissamvinnufélög hér landi voru lög nr. 24/1991 en þá var lagarammi um starfsemi húsnæðissamvinnufélaga í VII. kafla laga um Húsnæðisstofnun ríkisins undir heitinu ,,Húsnæðissamvinnufélög og búseturéttur``. Þegar Húsnæðisstofnun ríkisins var lögð niður og Íbúðalánasjóður settur á laggirnar með lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, voru lög um húsnæðissamvinnufélög aðskilin frá heildarlöggjöf um húsnæðismál og fundinn staður í sérstökum lögum um húsnæðissamvinnufélög. Mjög litlar breytingar urðu á þeim tíma á lögunum en þó var tekið út ákvæði um verðtryggingu á endurgreiðslu búseturéttar.

Núna eru nokkur húsnæðissamvinnufélög á landinu. Tvö þeirra eru langstærst, Búseti hsf. Reykjavík og Búmenn. Búseti hsf. Reykjavík var stofnað 15. október árið 1983 og voru fyrstu búsetuíbúðirnar teknar í notkun árið 1988. Í dag eru um 550 búsetuíbúðir í eigu og rekstri á vegum búsetafélaga, flestar á höfuðborgarsvæðinu. Á Akureyri eru yfir 60 íbúðir en síðan eru 5--15 íbúðir á Akranesi, á Húsavík, í Neskaupstað og á Egilsstöðum. Félagsmenn þessara félaga eru samtals um 2.800. Í lok síðasta árs stofnaði Búseti hsf. á höfuðborgarsvæðinu sérstakt félag til að annast rekstur leiguíbúða fyrir almennan markað. Búseti hsf. tekur jafnframt þátt í átaki sem sett var af stað að frumkvæði félmrn. til þess að fjölga leiguíbúðum í landinu. Félag Búseta hsf. hefur hafið byggingu á fyrstu leiguíbúðunum sem verða alls 300 í þessu sérstaka átaki.

Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn var stofnað 1998. Félagssvæðið er allt landið og hafa verið stofnaðar átta félagsdeildir innan þess. Búmenn voru í upphafi deild innan Búseta í Reykjavík sem síðan þróaðist í sjálfstætt landsfélag. Meginmunur milli Búseta og Búmanna er aldursskilyrði í síðarnefnda félaginu en félagsmenn þurfa að hafa náð 50 ára aldri til að hafa rétt til búseturéttarkaupa. Íbúðir Búmanna eru með góðu aðgengi og m.a. þannig lögð áhersla á að íbúarnir geti búið í þeim eins lengi og kostur er. Búmenn hafa tekið 134 íbúðir í notkun í átta sveitarfélögum og hafa gefið út 2.600 félagsnúmer. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru Akureyri, Bessastaðahreppur, Garður, Grindavík, Höfn, Kópavogur, Reykjavík og Sandgerði.

Húsnæðissamvinnufélagsformið er víða þekkt og þá sérstaklega á Norðurlöndum. Það sameinar að mörgu leyti eignar- og leigurétt. Félagsmenn kaupa sér svokallaðan búseturétt fyrir ákveðna upphæð sem í upphafi er mismunur á áhvílandi langtímaláni og byggingarkostnaði, 10 eða 15% af andvirði íbúðarinnar, og 10 eða 30% í tilfelli Búmanna. Síðan er greiddur mánaðarlegur kostnaður er kallast búsetugjald.

Reynsla undanfarinna ára hefur verið höfð til fyrirmyndar við frumvarpsvinnuna. Markmiðin með frv. eru að gera lögin skýrari í framsetningu og setja traustari grunn undir ábyrgðarskiptingu milli húsnæðissamvinnufélaga og félagsmanna. Reglur um réttindi og skyldur félagsmanna eru gerðar skýrari jafnframt því að tryggja öruggari forsendur fyrir nauðsynlegu viðhaldi og rekstri þegar horft er til framtíðar. Einnig er verið að rýmka lögin og færa ákvörðunarvald um starfshætti í meira mæli til húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra.

[15:45]

Í nefndarstarfinu hefur verið leitast við að hafa samráð við forsvarsmenn húsnæðissamvinnufélaga. Framkvæmdastjóri Búseta sem og löggiltur endurskoðandi Búmanna hafa setið í nefndinni. Þegar drög að frumvarpstexta lágu fyrir á sumarmánuðum 2002 voru drögin send til umsagnar hjá Landssambandi húsnæðissamvinnufélaga og til Búmanna. Stjórn Búseta á Akureyri og í Reykjavík gerðu engar athugasemdir við drögin en stjórn Búmanna kom með ýmsar athugasemdir sem hafðar voru til hliðsjónar við lokafrágang frv.

Helstu nýmæli frv. eru þau að innlausnarskylda húsnæðissamvinnufélaga á búseturétti er afnumin, endursala búseturéttar er gefin frjáls, ákvæði um númeraröð færð í samþykktir félaganna og tillaga er gerð um að viðhaldssjóður verði einn sameiginlegur sjóður.

Í núgildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 161/1998, skal húsnæðissamvinnufélagið annast innlausn og endursölu búseturéttar. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélagið ákveði á aðalfundi og setji í samþykktir sínar með hvaða hætti endursala fari fram. Meðal annars er fallið frá kaupskyldu húsnæðissamvinnufélaga en áfram ber félagsmaður aðeins ábyrgð á greiðslu búsetugjalds á meðan hann býr í íbúðinni, þar með talið út uppsagnarfrestinn. Eftir þann tíma er húsnæðissamvinnufélagi heimilt að leigja íbúðina hafi ekki tekist að selja búseturéttinn.

Í núgildandi lögum er heimild, en ekki skylda eins og áður, til að binda endursöluverð við vísitölu neysluverðs en því var breytt með lögum nr. 161/1998, eins og áður var vikið að. Í kjölfarið setti Búseti hsf. Reykjavík í samþykktir sínar reglur til að ákvarða endursöluverð búseturéttar með tvennum hætti. Annars vegar er lágmarksverð sem nemur upphaflegu verði búseturéttarins og kemur til greiðslu 12 mánuðum eftir uppsögn ef ekki tekst að selja búseturéttinn. Hins vegar er hámarksverð sem miðast við framreiknað upphaflegt verð búseturéttarins samkvæmt vísitölu neysluverðs. Endursöluverð getur því verið hvaða verð sem er þar á milli og fer eftir framboði og eftirspurn hverju sinni.

Frv. gerir ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélögin ákveði sjálf hvernig endursöluverð skuli ákveðið. Með því er endursala og verðlagning gefin frjáls ef félögin ákveða svo. Í þessu samhengi má vísa til nýsamþykktra laga um heimild til að víkja frá kaupskylduákvæðum vegna félagslegra eignaríbúða sem hafa gefist afar vel. Þróun á Norðurlöndum hefur verið á þann veg að verð búseturéttar ákvarðast af markaðsverði fremur en fyrir fram gefnum forsendum.

Í lögum um húsnæðissamvinnufélög er kveðið á um að félagsmenn öðlist rétt til að fá keyptan búseturétt í þeirri röð sem þeir ganga í félagið. Í frv. er gert ráð fyrir að aðalfundur félagsins taki ákvörðun og setji um það reglur.

Í frv. er ákvæði um viðhaldssjóð þannig að hann sé einn og alfarið á hendi húsnæðissamvinnufélagsins sem varðveitir viðhaldssjóðinn og ráðstafar fé úr honum í samráði við viðhaldsráð. Lagt er til að aðalfundur húsnæðissamvinnufélags setji nánari reglur um viðhaldssjóðinn, svo og reglur um viðhaldsráð. Framlag í viðhaldssjóð er hluti búsetugjalds. Með einum öflugum viðhaldssjóði húsnæðissamvinnufélags er ætlunin að ná betri ávöxtun, betri nýtingu fjármagns, aukinni samræmingu og ekki síst að tryggt verði enn frekar en áður að allar fasteignir húsnæðissamvinnufélagsins fái eðlilegt viðhald. Viðhaldsráð gegnir þarna veigamiklu hlutverki en gert er ráð fyrir kosningu þess á aðalfundum. Gerður er skýrari greinarmunur en áður á hvað er viðhald og hvað er endurnýjun sem og hvað viðhaldssjóðir eiga að greiða og hvaða viðhaldi íbúar sinna beint á eigin kostnað.

Sú breyting sem mesta umræðu hefur fengið er meðhöndlun viðhaldssjóða sem þegar eru til. Minna hefur farið fyrir umræðu um hvað beri að gera við viðhaldssjóði sem eru í skuld. Lagt er til að sjóðir sem nú eru í vörslu búsetufélaganna renni þegar í sameiginlegan viðhaldssjóð húsnæðissamvinnufélaganna enda er um að ræða fjármagn sem er sannanlega í eigu búsetufélaganna sem síðan er eign húsnæðissamvinnufélagsins. Félagið ber jafna ábyrgð á öllum fasteignum sínum óháð núverandi ástandi á húseignunum og fjárhagsstöðu einstakra viðhaldssjóða. Því er nauðsynlegt að koma viðhaldsmálum strax í það horf sem nefndin telur heillavænlegast fyrir húsnæðissamvinnufélögin í heild sinni.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til hv. félmn. til athugunar.