Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:46:39 (1906)

2002-11-28 18:46:39# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hæstv. ráðherra ætlar sér að taka inn af áfenginu, þá liggur það ekki í augum uppi að það skili sér allt í ríkiskassann og að salan á sterka víninu verði algjörlega óbreytt eftir þessa hækkun. Þannig að ef það eru útreikningarnir og forsendurnar á bak við þetta þá er auðvitað ekkert í hendi að ekkert dragist saman í kaupum á sterku víni. Það er alls ekki í hendi og þarf að skoða þetta betur. Auðvitað getur þetta eins komið fram í aukningu á neyslu léttra vína, það er erfitt að átta sig á því, en það liggur þá fyrir ef þetta er það sem ráðherrann segir um forsendurnar á bak við þessa tölu að hann ætlar sér að fá það inn a.m.k. þá í óbreyttri sölu á sterku víni, en bara með þessari hækkun.

Auðvitað veit hæstv. ráðherra það þegar við erum að ræða um vímuefnavarnir að eðlilegt er að slík spurning komi fram í tengslum við hækkun á áfengi og tóbaki. Það hefur iðulega gerst í gegnum árin þegar verið er að hækka áfengi og tóbak að menn hafa viljað skoða hvort ekki sé eðlilegt að verja hluta af þeirri hækkun í vímuefnavarnir. Það er ekkert annað sem kemur upp á borðið núna, þegar við erum að ræða svona mikla hækkun, menn vilja setja eitthvað til vímuefnavarna að því er þann þátt varðar og það hljótum við, herra forseti, að skoða þegar við ræðum þetta mál í efh.- og viðskn. Og þá finnst mér hæstv. ráðherra skauta ansi léttilega í gegnum það hvaða áhrif þetta hefur á skuldastöðu heimilanna, en það hljótum við að fara ítarlega í gegnum í hæstv. efh.- og viðskn.