Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:53:52 (1998)

2002-12-03 14:53:52# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka það fram til upprifjunar að ég, og ég held öll stjórnarandstaðan, lýsti því yfir í umræðum í fyrravetur að við værum sammála því að koma þessari stofnun á laggirnar, ég verð leiðréttur ef það er ekki rétt. Ég tel að þetta sé að mörgu leyti ágætt skref en full ástæða til að vanda til þess eins og mögulegt er. Það er alveg rétt að við nefndum það í þeirri umsögn sem kom frá umhvn. að rétt væri að viðhalda hreindýraráði og við því hefur verið orðið og ég fagna því.

Það eru ýmsir hlutir í frv. sem við höfum ekki séð áður og þurfum að velta fyrir okkur hvað felst í þeim. Sem dæmi er nefnt í 36. gr. að felld verði brott heimild til veiðistjóra til að hafa með höndum rannsóknir. Í 42. gr. er sagt að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands komi að ákvörðun um minkaveiðar ,,þar sem þær kunna að vera nauðsynlegar``. Af orðanna hljóðan virðist mega lesa að það sé þá undantekningaratriði ef minkaveiðar eru nauðsynlegar. Auðvitað þarf að spyrja um það. Er þetta stefnumörkun um að útrýming eða það að halda í skefjum vargi af þessu tagi hafi breyst eitthvað, pólitíkin í því máli?

Það eru fleiri svipuð atriði sem ég sé ástæðu til að menn fái svör við við umfjöllun málsins og ég er ekkert að útiloka það, eins og ég sagði áðan, að það sé mögulegt að gera áður en kemur að þinghléi, en menn verða a.m.k. að gefa sér tíma til þess.