Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:56:03 (1999)

2002-12-03 14:56:03# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, tekið er fram að þetta sé ágætt skref að hafa stofnað Umhverfisstofnun og ég er svo sannarlega sammála því.

Hér var dregið fram að samkvæmt 36. gr. ætti veiðistjóri að hafa með höndum ákveðnar rannsóknir en samkvæmt þessu nýja skipulagi verður ekki starfandi neinn veiðistjóri. Umhverfisstofnun tekur yfir verkefni veiðistjóra og Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins og hreindýraráðs og stjórnsýslu varðandi dýraverndarmál, þannig að það leiðir af sjálfu sér.

Varðandi minkinn þá felst engin ný stefnumörkun um minkaveiðar í frv., það er alveg ljóst. En hv. þm. dregur það fram hérna að eðlilegt væri að fá svör við þessum spurningum í þingnefndinni og ég tek undir þau sjónarmið. Að sjálfsögðu þarf þingnefndin að ræða við hagsmunaaðila til að fara yfir málið. Að mínu mati eru þetta ekki það umfangsmikil mál að ekki sé mögulegt að klára þau fyrir jól. Telji umhvn. að málið sé það flókið er lítið hægt að segja við því. En það væri mög æskilegt að klára það af því að stofnunin tekur til starfa 1. janúar. Hún mun taka til starfa óháð því hvort þetta mál næst í gegn fyrir þann tíma, en það væri mjög æskilegt.