Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:01:06 (2002)

2002-12-03 15:01:06# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þó að Alþingi hafi ákveðið sl. vor, undir mikilli tímapressu og án þess að vera búið að ræða það til hlítar, að leggja niður dýraverndarráð er ekkert sem kæmi í veg fyrir að Alþingi gæti núna ákveðið að ákveðin ráðgjafarnefnd starfaði samkvæmt lögunum um Umhverfisstofnun og ætti að hafa svipuð málefni á sinni könnu og dýraverndarráð hefur haft hingað til. Ég bendi bara á ákvörðunina um hreindýraráð máli mínu til stuðnings. Ég hef haldið því fram í allri umræðu um þetta mál, herra forseti, að það sé afar illa undirbúið og ekki nægilega vel rökstutt eða undirbyggt af hálfu ráðuneytisins. Ég tel að ákvörðun af þessu tagi hefði átt að útheimta miklu meiri umræðu, við hefðum átt að skoða miklu fleiri stofnanir en hér er gert og ég hef lýst því yfir áður og geri það enn að frv. um Umhverfisstofnun sem varð að lögum sl. vor og á að ganga í gildi í janúar nk. er í mínum huga gengisfelling á náttúruverndarlögum.