Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:02:20 (2003)

2002-12-03 15:02:20# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alrangt að þetta mál sé illa unnið og það er líka alrangt að hér sé um að ræða einhverja gengisfellingu á náttúruvernd í landinu, alls ekki. Við stofnuðum með lögum frá Alþingi sl. vor nýja Umhverfisstofnun sem verður miklu betra og skilvirkara stjórnsýslutæki á umhverfissviðinu en við höfum séð áður. Þess vegna samþykkti Alþingi nýju lögin. Það er ríkur vilji Alþingis til þess að hafa þetta í þeim farvegi sem umhvrh. lagði til síðasta vor.

Varðandi dýraverndarráðið er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þingið getur endurreist dýraverndarráð, standi hugurinn til þess. En hugurinn stóð ekki til þess sl. vor og ég efast um að menn hafi algjörlega skipt um skoðun síðan þá. Þá mælti þingið með því að það yrði skoðað að viðhalda hreindýraráði sem umsagnaraðila, sem ráðgefandi aðila, og við tókum tillit til þess. Þess vegna höfum við það inni í þessu frv. að við leggjum til að hreindýraráð verði ekki algjörlega lagt niður endanlega, heldur að það starfi áfram sem ráðgefandi aðili. En við leggjum ekki til að dýraverndarráð verði endurvakið enda komu engin slík álit frá þinginu sl. vor. Ég tel að það sé óþarfi að viðhalda dýraverndarráði vegna þess að við viljum hafa stjórnsýsluna skilvirka og einfalda og við munum vera í samráði við hagsmunaaðilana og þá aðila sem fjalla um dýramál varðandi stefnumótandi atriði. Þetta er allt í mjög eðlilegum farvegi.