Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:08:28 (2004)

2002-12-03 15:08:28# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Frv. þetta er lagt fram í kjölfar skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um ástand rjúpnastofnsins frá 21. ágúst 2002. Að mati stofnunarinnr hefur rjúpum fækkað verulega á liðnum áratugum, stofnsveiflur eru að sléttast út og rjúpnastofninn er í lágmarki. Því er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til verndar stofninum og er hér um að ræða tillögur í fyrsta sinn um að gripið verði til aðgerða.

Þegar hefur verið ákveðið að frá og með næsta ári verði leyfilegur veiðitími styttur um þrjár vikur og svæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem rjúpnaveiðar eru alfarið bannaðar hefur verið stækkað verulega. Í frv. þessu er lagt til að gerðar verði tvenns konar breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum í því skyni að minnka veiðiálag á rjúpnastofninn. Annars vegar er lagt til að sala á rjúpum og rjúpnaafurðum verði bönnuð og hins vegar að kveðið verði á um það með skýrari hætti en fyrr að óheimilt verði að stunda veiðar á vélsleðum og fjórhjólum.

Samkvæmt veiðiskýrslum veiða um 10% veiðimanna um helming allra veiddra rjúpna. Ljóst er að bráð þessara manna er ekki nema að hluta til ætluð til eigin neyslu. Bann við sölu á rjúpu mundi því draga úr veiðum sem stundaðar eru í atvinnuskyni og þar með úr heildarfjölda veiddra rjúpna. Heimild fyrir slíku sölubanni er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Lagt er til að bannið verði tímabundið til fimm ára til samræmis við aðrar verndaraðgerðir sem gripið verður til. Að loknu því tímabili ætti að liggja fyrir hvort aðgerðirnar hafi borið árangur og hvort ástæða sé til að halda þeim áfram.

Þar sem markmið frv. er að vernda íslenska rjúpnastofninn er ekki talin ástæða til að láta sölubann þetta ná einnig til innfluttra rjúpna. Til að koma í veg fyrir að íslenskar rjúpur verði seldar sem innfluttar er í frv. gerð krafa um að varan sé þannig merkt við innflutning og sölu að fram komi frá hvaða landi hún er upprunnin.

Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að nota vélknúin ökutæki, þar með talið vélsleða og fjórhjól, til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Erfitt getur verið fyrir veiðimenn að fara eftir þessum reglum þegar jörð er þakin snjó enda er akstur utan vega þá almennt heimill samkvæmt náttúruverndarlögum. Allt eftirlit með slíku er jafnframt miklum erfiðleikum háð. Markmið banns um notkun vélsleða og fjórhjóla við veiðar er því að gera aðgengi veiðimanns að veiðislóð erfiðara, minnka það svæði sem hann kemst yfir í einni veiðiferð og þar með leitast við að draga úr veiðiálagi.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frv. og legg til að því verði vísað að lokinni 1. umr. til hv. umhvn.