Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:13:49 (2007)

2002-12-03 15:13:49# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan í inngangsorðum mínum varðandi þetta frv. er um að ræða aðgerðir til að draga úr veiðum á rjúpu. Við fengum tillögur frá Náttúrufræðistofnun Íslands um ýmsar aðgerðir, höfum skoðað þær með hagsmunaaðilum og komumst að því að ein ágæt leið í þessu sambandi væri að banna sölu á rjúpum til þess að hindra magnveiðimennina. 10% veiðimanna veiða helming veiddra rjúpna þannig að almennt talið er það æskilegt, að mínu mati, að takmarka veiðarnar, m.a. með því að banna sölu á rjúpum til veitingastaða og í búðir. Þetta hefur m.a. verið gert í Bretlandi og í Bandaríkjunum með ágætisárangri þannig að ég tel að við Íslendingar getum líka gripið til þessara aðgerða, vonandi með sama ágæta árangri. Hér er um lagaheimild að ræða sem gilda mun í fimm ár, verði hún samþykkt, en við vonum að þessar heildstæðu tillögur sem hér eru fluttar um að takmarka rjúpnaveiðarnar muni hafa borið árangur á þessu tímabili. Þá falla lögin eðlilega úr gildi að því afloknu.