Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:31:28 (2013)

2002-12-03 15:31:28# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil svo sem að hv. þm. geti ekki viðurkennt það að hann hafi kannski farið út fyrir það sem eðlilegt gat talist í þingskjali sínu, en það er alveg ljóst að það var ekki hægt að bera því við að of lítill tími væri í fyrra, því ekki komu fram neinar tillögur.

Náttúrufræðingar hafa margir hverjir haft þá skoðun að veiðiafföllin væru ekki mikil, veiðarnar skiptu ekki miklu máli. En þeir hafa verið að skoða kenningar sínar upp á nýtt og núna fáum við sem sagt tillögur um að grípa til aðgerða. Og það er ekki þannig að þetta komi frá einhverjum undirstofnunum. Þessar tillögur koma frá þeirri fagstofnun sem er hjá umhvrn. og sinnir rannsóknum á rjúpnastofninum og að sjálfsögðu tökum við það til skoðunar þegar sú fagstofnun kemur með tillögur sínar, ekki í fyrra eða hittiðfyrra, heldur núna í haust.

Það er rétt að lengi hefur verið í umræðunni hvort grípa ætti til einhverra aðgerða hjá ákveðnum hópum í samfélaginu. Við þessa umræðu hefur rignt inn tillögum um að rjúpan yrði alfriðuð, það yrði bara bannað að veiða hana um aldur og ævi. Það eru margir sem hafa þá skoðun. En það eru engin stofnvistfræðileg rök til þess.

Við höfum því í samráði við undirstofnun okkar og ýmsa aðra hagsmunaaðila lagt til víðtækar aðgerðir. En þannig er að þetta mál kom ekki inn á borð til okkar fyrr en núna í haust. Ég vil taka það sérstaklega fram af því hérna er gefið í skyn að við höfum eitthvað legið á liði okkar og ekkert verið að sinna þessum málaflokki og ráðherrann sé bara að henda þessu fram núna og þetta verði ekkert komið til framkvæmda fyrr en ráðherrann verði hugsanlega farinn til einhverra annarra starfa. Ég vil mótmæla þessu.

Þegar hefur verið gripið til aðgerða. Búið er að stækka margfalt það svæði á suðausturhorninu sem er friðað fyrir veiðum og svo öflum við okkur hér heimilda til þess að banna söluna á rjúpunni og takmarka veiðarnar af fjórhjólum og snjósleðum og svo styttum við veiðitímann á næsta ári í næstu fimm ár.