Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:08:04 (2022)

2002-12-03 16:08:04# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samkvæmt mínum upplýsingum mega æðarbændur nýta æðaregg. Það er ekki þannig að þeir megi ekki snerta þau eða neitt slíkt, eins og hv. þm. dró hér upp.

Varðandi heimaslátrun þá skil ég það þannig að menn megi ekki selja af heimaslátruðu. Hér er því haldið fram að einhver heilbrigðissjónarmið ráði því hvort þeir fá að selja af heimaslátruðu eftir skoðun, en það er ekki þannig. Þeir geta nýtt kjötið í eigin þágu en mega ekki selja af heimaslátruðu, eins og ég hef skilið málið.

Við erum að banna sölu á rjúpum vegna ákveðinna sjónarmiða. Það er ekki þannig að við gerum það okkur til skemmtunar. Það er vegna þeirra sjónarmiða að 10% veiðimanna veiða helming veiddra rjúpna. Við viljum gjarnan takmarka þessar veiðar. Þess vegna leggjum við til sölubann. Ég vona að það muni virka jafn vel hér og það hefur virkað í öðrum löndum. Mér skilst að það virki mjög vel í Bretlandi og í Bandaríkjunum.