Eyrnasuð

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:38:32 (2060)

2002-12-04 14:38:32# 128. lþ. 46.5 fundur 363. mál: #A eyrnasuð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til heilbrrh. um eyrnasuð, en eyrnasuð eða tinnitus sem er hvimleiður kvilli sem tugir milljóna manna, karla og kvenna um allan heim þjást af. Um er að ræða suð fyrir öðru eða báðum eyrum sem dynur á sjúklingum allan sólarhringinn allt árið um kring, eyrnasuð sem erfitt er fyrir okkur sem þjáumst ekki af þessum kvilla að skilja, en hefur verið lýst sem suði, hvísli, klið eða óþolandi hávaða.

Eyrnasuð er ekki sjúkdómur heldur sjúkdómseinkenni og það er ekki vitað um nákvæma skýringu nema í einstaka tilfellum. Þetta er því einkenni sem hrjáir mjög marga. Við vitum að fjöldinn er mikill í öllum heiminum. Aftur á móti vitum við ekki hver fjöldinn er hér á Íslandi og hversu alvarleg áhrif eyrnasuð hefur á lífsgæði þeirra einstaklinga sem þjást af eyrnasuði.

Ekki er til nein góð lækning við eyrnasuði. En það eru mjög margar rannsóknir í gangi og verið er að reyna ýmiss konar meðferðir, t.d. lyfjameðferð, tækjameðferð og atferlismeðferð. Margt af þessu hjálpar. En til þess að það geti orðið þarf sérfræðiþekkingu til að veita viðkomandi úrlausn. Fá erindi berast eins oft til Heyrnarhjálpar og erindi frá einstaklingum sem hafa óþægindi af eyrnasuði. Þetta eru þau erindi sem berast oft. Hér á landi er engin markviss --- í raun og veru er engin aðstoð eða hjálp til. Við höfum ekki sérfræðiþekkingu. Það er í rauninni engin þjónusta í dag. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hve margir Íslendingar hafa greinst með eyrnasuð?

2. Hversu útbreitt má telja að eyrnasuð sé hér á landi?

3. Hvaða úrræði standa þessu fólki nú til boða?

4. Vinnur ráðherra að úrbótum fyrir fólk með eyrnasuð og ef svo er, hverjar eru þær?