Eyrnasuð

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:41:33 (2061)

2002-12-04 14:41:33# 128. lþ. 46.5 fundur 363. mál: #A eyrnasuð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur beint til mín fyrirspurn um tíðni og meðferð við eyrnasuði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað margir Íslendingar hafa eyrnasuð en talið er að u.þ.b. einn af hverjum 20 fullorðinna þjáist af þessu vandamáli og allt að 12% fólks á bilinu 65--74 ára samkvæmt erlendum rannsóknum. Vandamál fæstra þeirra einstaklinga er mjög alvarlegt, en áætlað er að sá hópur sem þurfi sérstakrar meðferðar við hér á landi geti verið um 20--30 manns.

Til að finna nákvæma tíðni eyrnasuðs meðal Íslendinga, annaðhvort í sjúkraskrám eða á annan hátt, þarf sérstakrar rannsóknar við. Með áframhaldandi þróun rafrænnar sjúkraskrár hins íslenska heilbrigðisnets og aukinni söfnun upplýsinga úr heilbrigðiskerfinu til embættis landlæknis ætti að vera hægt að svara spurningum af þessu tagi á auðveldari hátt en hingað til. Að þessum málum er verið að vinna.

Meðferð eyrnasuðs er mjög erfið. Ýmis lyf hafa verið reynd en engin með afgerandi árangri. Þungamiðja meðferðar beinist oft að atferlismeðferð þar sem aðferðum á borð við dáleiðslu, slökun og líffræðilegt endurkast, ,,bio-feedback``, hefur verið beitt. Ráðgjöf sem beinist að því að kenna fólki að lifa með vandamálinu er mikilvægur hluti meðferðar. Tæki sem framleiða tiltekna tegund hljóðs eru einnig notuð til að breiða yfir eyrnasuðið eða draga úr óþægindum af því. Meðferð af þessu tagi kallar á þverfaglega nálgun lækna, heyrnarfræðinga, sálfræðinga og geðlækna sem menntun hafa í meðferð sállíkamlegra einkenna.

Á vegum landlæknis var settur á fót formlegur starfshópur fyrir um fjórum mánuðum og vinnur hann að tillögugerð um bætta meðferð fólks með eyrnasuð hér á landi. Hugmyndir hópsins eru ekki með öllu frágengnar en lúta einkum að því að sett verði á stofn þverfagleg göngudeild með þátttöku ofangreindra fagmanna. Virðist eðlilegt að henni sé fundinn staður hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í samvinnu við Landspítalann -- háskólasjúkrahús og e.t.v. fleiri stofnanir.

Herra forseti. Ég vona að með þessum upplýsingum hafi ég svarað fyrirspurn hv. þm.